Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 13. febrúar 2020 14:30
Magnús Már Einarsson
Bjöggi Stef: Hef engan áhuga á að spila með öðru liði en KR
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Það er alltaf gaman að að spila leiki og sérstaklega þá að geta hjálpað liðinu að vinna og skora mörk," sagði Björgvin Stefánsson, framherji KR, við Fótbolta.net í dag en hann kom inn á sem varamaður og skoraði tvívegis í 4-2 sigri á ÍA í Lengjubikarnum í gærkvöldi.

Björgvin hefur lítið spilað undanfarið og var meðal annars ónotaður varamaður í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins. Í kjölfarið fóru af stað sögur um að hann gæti verið á förum frá KR.

„Sú umræða hefur meira að segja farið framhjá mér og ég hef í rauninni ekkert spáð í því. Ég er leikmaður KR og pæli ekki í neinu öðru. Það hefur enginn rætt við mig um það hvort ég vilji fara, sem er kannski bara ágætt því ég hef engan áhuga á því að spila með öðru liði en KR," sagði Björgvin sem er staðráðinn í að berjast fyrir sæti sínu í liði KR.

„Ég er staðráðinn í því að leggja mig allan fram á æfingum og nýta þau tækifæri sem ég fæ í leikjum. Við erum með stóran og hrikalega góðan hóp og það er enginn sem á fast sæti í liðinu, maður þarf að berjast fyrir sæti sínu og það er eitthvað sem ég ætla mér klárlega að gera."

Um síðustu helgi skoraði Björgvin þrennu í 7-1 sigri KV á Hvíta Riddaranum í C-deild Fótbolta.net mótsins. Hvernig kom það til að hann spilaði með KV þar?

„Það kom nú bara til vegna þess að ég hef ekki spilað mikið undanfarið og Rúnari (Kristinssyni) fannst sniðugt að ég myndi fá þennan leik til þess að fá einhverjar mínútur af leikæfingu. Það eru náttúrulega góð tengsl á milli KR og KV og þetta var bara hrikalega gaman. Þvílíkir toppmenn þarna hjá KV sem tóku vel á móti mér og fundu meira að segja treyju fyrir mig í extra large," sagði Björgvin léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner