mið 13. mars 2019 21:02
Ívan Guðjón Baldursson
Þjálfari Rennes furðar sig á tímasetningu ákvörðunar UEFA
Mynd: Getty Images
Julien Stephan, þjálfari Rennes, furðar sig á tímasetningu ákvörðunar UEFA um að stytta leikbann Alexandre Lacazette, sóknarmanns Arsenal.

Lacazette fékk þriggja leikja bann eftir að hafa verið rekinn útaf gegn BATE Borisov í Evrópudeildinni og var því ekki í liði Arsenal sem tapaði 3-1 gegn Rennes í 16-liða úrslitum í síðustu viku.

Arsenal áfrýjaði banninu og fékk svar í gær, 48 klukkustundum fyrir seinni leik liðanna sem fer fram á Emirates annað kvöld. Bannið var stytt úr þremur leikjum í tvo og er franski sóknarmaðurinn því gjaldgengur.

„Við furðum okkur á tímasetningunni, við bjuggumst ekki við að hann yrði gjaldgengur. Þetta eru frábærar fréttir fyrir hann og liðið sjálft en ekki jafn góðar fyrir okkur," sagði Stephan.

„Þetta breytir okkar undirbúningi því með Lacazette þá geta þeir spilað fleiri leikkerfi, eins og 3-5-2 með tvo sóknarmenn.

„Það er fáránlegt að þessi ákvörðun hafi verið tekið tveimur dögum fyrir leikdag þegar atvikið gerðist fyrir mánuði síðan."


Stephan segir það þó algjörlega vera undir sínum mönnum komið að komast áfram, hvort sem Lacazette er með eða ekki.

„Markmiðið okkar er að skora minnst eitt mark. Það er hættulegt að koma hingað og ætla sér að verjast allan leikinn. Við búumst við að Arsenal muni spila mikið betur en í fyrri leiknum og það er undir okkur komið að setja okkur í góða stöðu með að skora mark."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner