mán 13. mars 2023 14:30
Elvar Geir Magnússon
Guardiola: Þurfum bara að vinna þennan leik
Pep Guardiola og lærisveinar mæta RB Leipzig annað kvöld.
Pep Guardiola og lærisveinar mæta RB Leipzig annað kvöld.
Mynd: EPA
„Við getum ekki stýrt umræðunni út á við þegar kemur að Meistaradeildinni," segir Pep Guardiola, stjóri Manchester City. Hann sendir einföld skilaboð til síns liðs fyrir seinni leikinn gegn RB Leipzig: Vinnið bara leikinn.

City gerði 1-1 jafntefli í Þýskalandi og þar sem útivallamarkareglan er ekki lengur í gildi er ljóst að sigurliðið í seinni leiknum á morgun fer í 8-liða úrslit keppninnar.

Það er mikil pressa á Guardiola og City að vinna Meistaradeildina en sjálfur segir Spánverjinn sínum mönnum að hlusta ekki á umræðuna.

Eins og hann hefur sagt áður þá er hann meðvitaður um að verða dæmdur á því hvort hann nái að vinna keppnina með City.

„Það verður klárlega þannig, við verðum dæmdir á því hvort við vinnum Meistaradeildina. Það þýðir samt ekki að ég sé sammála. Um leið og ég tók við City þá var ég spurður að því hvort ég væri mættur til að vinna Meistaradeildina," segir Guardiola.

„Við getum ekki stýrt hvernig umræðan er. Við erum af mörgum taldir sigurstranglegastir í keppninni, byggt á því hvað við höfum gert í fortíðinni. En raunveruleikinn eru 95 mínúturnar inni á vellinum."

„Ég hef skoðað Leipzig og þetta er virkilega gott lið. Á Englandi talar fólk um Napoli, Milan og Real Madrid. Öll lið eru með gæði og styrkleika. Á okkar heimavelli, fyrir framan okkar stuðningsmenn, verðum við að vinna leikinn. Hversu stórt skiptir engu máli, við þurfum bara að vinna."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner