mán 13. mars 2023 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Neymar ætlar að klára ferilinn í París þó félagið vilji það ekki endilega
Neymar.
Neymar.
Mynd: EPA
Þó háværar sögur séu um að Paris Saint-Germain vilji losna við Neymar, þá er Brasilíumaðurinn sjálfur ekkert á þeim buxunum að yfirgefa félagið.

Hinn 31 árs gamli Neymar hefur ekki staðist þær væntingar sem gerðar voru til hans er PSG gerði hann að dýrasta leikmanni sögunnar sumarið 2017. Hann hefur mikið verið meiddur og misst af fjölda leikja vegna þess.

Neymar er samningsbundinn PSG til 2027 og samkvæmt The Athletic þá vill leikmaðurinn dvelja hjá félaginu út ferilinn. Neymar vill vinna fleiri titla hjá félaginu og einnig þann stóra sem félaginu dreymir mest um: Meistaradeildina.

Eins og staðan er núna þá er það ekki í plönum Neymar að spila fyrir annað félag, þó það séu sögur um að PSG vilji losna við hann og endurbyggja liðið í kringum Mbappe.

Síðasta sumar var sagan sú að Neymar væri að setja slæmt fordæmi á æfingasvæðinu og að aðrir leikmenn væru ósáttir við hann. Þá voru sögur um slæmt samband hans og Kylian Mbappe. En PSG getur ekki losað sig við hann, nema hann vilji fara.

Neymar er í augnablikinu meiddur og spilar líklega ekkert meira með á þessu tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner