Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 13. maí 2019 18:00
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson
Enska uppgjörið - Daníel Geir svarar spurningum um tímabilið
Elvar og Daníel, stjórnendur Evrópu-Innkastsins á Fótbolti.net.
Elvar og Daníel, stjórnendur Evrópu-Innkastsins á Fótbolti.net.
Mynd: Innkastið
Sadio Mané var bestur að mati Daníels.
Sadio Mané var bestur að mati Daníels.
Mynd: Getty Images
David de Gea olli mestum vonbrigðunum.
David de Gea olli mestum vonbrigðunum.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór fær góða einkunn hjá Daníel fyrir tímabilið.
Gylfi Þór fær góða einkunn hjá Daníel fyrir tímabilið.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net gerir upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni þessa vikuna, leitað verður til sparkspekinga til að svara nokkrum spurningum um tímabilið sem er að baki og tímabilið sem framundan er. Í dag svarar Daníel Geir Moritz úr Evrópu-Innkastinu nokkrum laufléttum spurningum.

Besti leikmaðurinn?
Allir velja Van Dijk og skil ég það vel. Hins vegar er erfiðara að skora en að skemma og fyrir mér er Sadio Mané leikmaður ársins. Hann hélt sjó allt tímabilið og giskaði enginn á að hann fengi gullskó.

Stjóri tímabilsins?
Klopp, Nuno og Guardiola koma hér til greina en stjóri meistaranna fær þetta. Það er í raun ótrúlegt að hafa betur gegn liði sem fékk 97 í deildinni. City vantaði að auki sinn besta mann frá því í fyrra, Kevin De Bruyne.

Besta markið?
Gylfi og Townsend skoruðu frábær mörk en mark Vincent Kompany gegn Leicester er mark ársins. Bæði var það virkilega flott og svo var mikilvægið gríðarlegt.

Besti leikurinn?
Eins lítið og mig langar að rifja það upp þá var 5-1 sigur Liverpool á Arsenal besti leikurinn. Liverpool lét Arsenal líta hræðilega út og urðu þetta kaflaskil hjá Torreira sem hafði verið frábær hjá Arsenal fram að þessu en Firmino og félagar sáu til þess að hann fann sig ekki alveg eftir þennan leik.

Besti leikmaðurinn fyrir utan topp sex liðin?
Ryan Fraser. Skoraði þónokkur mörk og átti fjölmargar stoðsendingar. Það verður forvitnilegt að sjá hvort hann fari í stórlið í sumar eða ekki.

Vanmetnasti leikmaðurinn?
Þetta fer á Jordan Henderson. Allt of oft sem hann er ekki metinn af verðleikum sínum en Hendo er frábær leikmaður. Svo þegar hann á stórleiki segja margir að hann nái að bæta fyrir lítil gæði með dugnaði. Það er kjaftæði. Hann er stútfullur af gæðum þessi gæi.

Hvaða lið olli mestum vonbrigðum í vetur?
Þetta fer til rauða liðsins í Manchester. Þvílík vonbrigði sem þetta tímabil var. Á löngum köflum héldu menn að José Mourinho væri vandamálið en nú hefur komið á daginn að vandamálin eru miklu stærri. Liðið er með fullt af hæfileikaríkum mönnum, á frábæran völl og einhvern stærsta stuðningsmannahóp í heimi en samt gekk ekkert. Þeir voru oft svo lélegir að það nær engri átt. Þórðargleði mín yfir þessu er engin því við viljum hafa Man Utd sem gott lið svo deildin sé sem skemmtilegust.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur?
Það er klárlega David De Gea. Endar síðasta tímabil sem einn besti markmaður heims, á síðan ömurlegt HM og hefur verið afleitur á þessu tímabili. Þetta er ótrúlega dapurt og vonandi nær hann ferli sínum aftur á flug, enda hefur hann glatt marga með stórbrotnum tilþrifum í gegnum árin.

Hvaða lið mun styrkja sig mest í sumar?
Ég vona auðvitað að það verði Arsenal en það yrði svo mikil nýjung á þeim bænum að vonir mínar eru ekki miklar. Ég ætla að giska á að Liverpool styrki sig mest í sumar. Þeir eru farnir að kaupa dýra menn og ég held að við séum rétt að upplifa byrjunina á því sem Liverpool ætlar sér á næstu árum.

Hvernig lýst þér á komu VAR í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili?
Ég er ekki jafn spenntur og EL-VAR vinur minn. Enskir dómarar hafa verið í miklu basli með þetta í bikarnum, svo það má vel búast við skrýtnu tímabili hvað þetta varðar.

Hvernig metur þú frammistöðu Íslendinganna þriggja í ensku úrvalsdeildinni í vetur?
Aron Einar: Náði sér aldrei á flug vegna meiðsla en gaf allt í þetta þegar hann spilaði. Var eflaust einn af bestu mönnum liðsins en þetta var ekki hans besta tímabil á ferlinum.

Gylfi Þór: Gylfi var flottur á tímabilinu. Skoraði nokkur mörk og er með stoðsendingahæstu mönnum. Ég myndi gefa Gylfa 8,5 fyrir þetta tímabil.

Jóhann Berg: Þetta tímabil hlýtur að vera vonbrigði fyrir Jóa persónulega. Það er samt ekki eins og hann hafi verið slakur enda spiluðu meiðsli stóran þátt í tímabil hans. Þá kom upp vonarstjarna hjá Burnley sem ýtti Jóa úr brjunarliðinu og fer Jói úr því að vera lykilmaður í fyrra í að vera mikið meiddur og á bekknum í ár. Ég hef samt engar áhyggjur og er þess fullviss um að Jói nái sér og verði lykilmaður á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner