Man City setur verðmiða á Cancelo - Simons eftirsóttur - Lille hafnar Liverpool
   mán 13. maí 2024 16:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Líður mjög vel í Eyjum og er búinn að festa rætur - Alltaf með F og U í reit
Lengjudeildin
Ég sé ekkert eftir því að hafa komið hingað
Ég sé ekkert eftir því að hafa komið hingað
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Setti þrennu á föstudag.
Setti þrennu á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net
Alltaf aðeins spjallað um fótbolta.
Alltaf aðeins spjallað um fótbolta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Heiðarsson var fyrir rúmu ári síðan keyptur til ÍBV frá FH. Oliver er sóknarmaður sem býr yfir miklum hraða og var hann búinn að taka tvö tímabil með FH eftir að hafa byrjað meistaraflokksferilinn með Þrótti Reykjavík.

Oliver skoraði þrennu í 4-2 sigri ÍBV gegn Þrótti á dögunum og var hann besti leikmaður 2. umferðar í Lengjudeildinni. Fótbolti.net spjallaði við kappann um lífið í Eyjum í dag.

„Lífið í Eyjum er mjög gott, ég er búinn að festa mig hérna; keypti mér einbýlishús í fyrrasumar, kominn með kærustu og við vorum að fá okkur hund. Lífið er mjög gott hérna," sagði Oliver.

Var planið að festa alveg rætur í Eyjum?

„Nei, alls ekki. Mér leið bara ofboðslega vel hérna síðasta sumar og ákvað því að kaupa mér eign. Á eiginlega sama tíma þá kynntist ég kærustunni og hún flutti inn á sama tíma og ég. Við svo ákváðum saman að fá okkur hund."

Horfiru á þig sem Eyjamann í dag?

„Já, alltaf þegar það er reitur þá er ég með F og U, fæddum og uppöldum. Ég er með Lexa (Alex Frey Hilmarssyni) í þeim pakka. Við erum saman í þessu."

Oliver kláraði sveinsprófið í vetur og vinnur sem rafvirki hjá Laxey í Eyjum.

„Ég sé ekkert eftir því að hafa komið hingað. Ég hafði bara komið hingað til að keppa leiki áður en ég tók ákvörðun um að flytja hingað. Ég var ekkert það lengi að detta inn í hlutina hérna. Ég hef bara búið í stórborgum þannig séð, bjó lengi í London, svo aðeins í Manchester og svo flyt ég til Reykjavíkur. Ég var aldrei búinn að prófa að vera í litlu samfélagi. Ég var ekki lengi að koma mér vel fyrir hérna og finn að mér líður mjög vel í svona litlu samfélagi."

Kærasta Olivers, Selma Björt Sigursveinsdóttir, er í kvennaliði ÍBV í fótbolta. Er mikið talað um fótbolta á heimilinu?

„Maður kemst ekki hjá því, það er alltaf eitthvað sem þarf að ræða. Líka þegar maður fer í mat til tengdó og svona, þá er alltaf aðeins spjallað um fótbolta, bæði kvenna- og karlamegin," sagði Oliver.

Nánar var rætt við Oliver um fótboltann og verður seinni hluti viðtalsins birtur seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner