Höjlund færist nær Milan - Ramsey á leið til Newcastle - Man City í viðræðum um Donnarumma
   mið 13. ágúst 2025 20:12
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Jón Daði skoraði og lagði upp í fræknum sigri
Lengjudeildin
Mynd: Selfoss
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fjórum fyrstu leikjum kvöldsins er lokið í Lengjudeildinni þar sem fallbaráttulið Selfoss kom á óvart og lagði HK að velli með þriggja marka mun. Keflavík og Þór unnu þá stórsigra á meðan Leiknir hafði betur í botnslagnum.

Selfoss 3 - 0 HK
1-0 Aron Fannar Birgisson ('20)
2-0 Raúl Tanque ('62)
3-0 Jón Daði Böðvarsson ('78, víti)

Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 0 HK

Aron Fannar Birgisson skoraði eina markið í jöfnum fyrri hálfleik eftir langt innkast. Selfoss hélt forystunni allt þar til Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik til að spila sinn fyrsta keppnisleik á Selfossi síðan 2012.

Það tók Jón Daða aðeins nokkrar mínútur að láta til sín taka þar sem hann lagði upp fyrir Raúl Tanque með skalla eftir hornspyrnu. Laglegur skalli hjá Jóni Daða til að búa til mark.

Á lokakaflanum var dæmd vítaspyrna þegar boltinn fór í hendi á varnarmanni HK innan teigs og skoraði Jón Daði af vítapunktinum við mikil fagnaðarlæti úr stúkunni. Hans fyrsta mark eftir þrettán ára fjarveru.

Bæði lið fengu færi til að bæta marki við leikinn en tókst ekki, svo lokatölur urðu 3-0. Selfoss fer upp í 16 stig með þessum sigri og er núna fjórum stigum frá fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir af sumrinu.

Þetta tap er skellur fyrir HK í toppbaráttunni. Þar situr liðið eftir í fjórða sæti með 30 stig - sjö stigum frá toppnum ef Njarðvíkingar sigra sinn leik sem er í gangi núna.

Völsungur 2 - 5 Þór
0-1 Rafael Victor ('3)
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('17, misnotað víti)
1-1 Ismael Salmi Yagoub ('19)
1-2 Ibrahima Balde ('43)
1-3 Einar Freyr Halldórsson ('45)
1-4 Kristófer Kristjánsson ('46)
2-4 Elfar Árni Aðalsteinsson ('55)
2-5 Sigfús Fannar Gunnarsson ('61)

Lestu um leikinn: Völsungur 2 - 5 Þór

Völsungur tók þá á móti Þór í nágrannaslag á Húsavík og úr varð gífurlega mikil skemmtun. Rafael Victor tók forystuna fyrir gestina frá Akureyri og klúðraði Elfar Árni Aðalsteinsson svo af vítapunktinum þegar hann fékk tækifæri til að jafna. Skömmu síðar gerði liðsfélagi hans Ismael Salmi Yagoub þó jöfnunarmarkið.

Jafnræði ríkti með liðunum þar til skömmu fyrir leikhlé þegar Þórsarar skiptu um gír. Ibrahima Balde skoraði laglegt mark á 43. mínútu til að taka forystuna skömmu áður en Einar Freyr Halldórsson tvöfaldaði forystuna beint úr afar laglegri aukaspyrnu. Staðan var því 1-3 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Kristófer Kristjánsson gerðu svo fjórða markið úr fyrstu sókn seinni hálfleiksins. Hann skoraði eftir laglegt samspil við Sigfús Fannar Gunnarsson.

Elfar Árni var fljótur að svara með marki fyrir heimamenn en skömmu eftir það innsiglaði Sigfús Fannar sigur Akureyringa eftir fyrirgjöf frá Rafael.

Bæði lið reyndu að bæta við marki við á lokakaflanum en tókst ekki svo lokatölur urðu 2-5 fyrir Þór sem er í harðri toppbaráttu. Þórsarar eru í þriðja sæti með 33 stig eftir þennan sigur, fjórum stigum á eftir toppliði Njarðvíkur. Völsungur er í neðri hluta deildarinnar með 19 stig.

Keflavík 4 - 0 Grindavík
1-0 Muhamed Alghoul ('21)
2-0 Kári Sigfússon ('45)
3-0 Ásgeir Páll Magnússon ('65)
4-0 Axel Ingi Jóhannesson ('80)

Lestu um leikinn: Keflavík 4 - 0 Grindavík

Í Keflavík var áhugaverður nágrannaslagur þegar Grindvíkingar komu í heimsókn. Heimamenn voru talsvert sterkari aðilinn og leiddu 2-0 í hálfleik þar sem Kári Sigfússon átti mark og stoðsendingu.

Ásgeir Páll Magnússon og Axel Ingi Jóhannesson gerðu út um viðureignina með mörkum í síðari hálfleik til að innsigla þægilegan fjögurra marka sigur Keflvíkinga.

Keflavík er í harðri baráttu um umspilssæti með 28 stig eftir 17 umferðir. Grindavík er fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Leiknir R. 1 - 0 Fylkir
1-0 Patryk Hryniewicki ('96)

Lestu um leikinn: Leiknir 1 - 0 Fylkir

Að lokum áttust Leiknir R. og Fylkir við í botnslagnum þar sem staðan var markalaus allt þar til seint í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Það var lítið að frétta fyrr en undir lokin þegar Fylkismenn gerðu sig líklega. Þeir komust í frábær færi og hreint út sagt ótrúlegt að þeir hafi ekki komið boltanum í netið en þeim var svo refsað á 96. mínútu.

Patryk Hryniewicki skoraði þá með síðustu spyrnu leiksins eftir hornspyrnu. Ótrúlega dramatískt sigurmark í botnbaráttunni.

Leiknismenn lyfta sér af botni deildarinnar með þessum sigri. Þeir eru núna einu stigi fyrir ofan fallsvæðið. Fylkir er á botninum með 11 stig eftir 17 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner