þri 14. janúar 2020 17:22
Elvar Geir Magnússon
Oliver gerir þriggja ára samning við Breiðablik (Staðfest)
Oliver Sigurjónsson.
Oliver Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Miðjumaðurinn Oliver Sigurjónsson, er kominn heim eftir tveggja ára dvöl í Noregi en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Breiðablik.

„Það er fagnaðarefni fyrir Blika að fá Oliver til liðs við okkur enda er hann frábær knattspyrnumaður og mikill karakter. Það er ljóst að hann mun styrkja lið okkar," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliki.

Oliver, sem er 24 ára gamall, á að baki 93 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað 8 mörk. Hann á að baki tvo A-landsleiki og hvorki fleiri né færri en 50 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Oliver lék um tíma með AGF í Danmörku og svo Bodö/Glimt í Noregi.

Oliver var ósáttur hjá Bodö/Glimt og sagði frá því í viðtali við Fótbolta.net í lok október á síðasta ári að hann væri ósáttur við framkomu félagsins.

„Í heildina er þetta búið að vera ömurlegt þegar kemur að spiltíma. Ég kom heim 2018 til þess að koma mér í leikform og fá sjálfstraust, það gekk mjög vel að mínu mati," sagði Oliver meðal annars í viðtalinu.

Breiðablik hafnaði í 2. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili en Óskar Hrafn tók við þjálfun liðsins að tímabilinu loknu.


Athugasemdir
banner
banner