Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 14. febrúar 2021 22:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gefur í skyn að Klopp hafi snúið dómurum gegn Man Utd
Maguire ræðir við Craig Pawson, dómara.
Maguire ræðir við Craig Pawson, dómara.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Mynd: Getty Images
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, var ósáttur við það að fá ekki vítaspyrnu í seinni hálfleiknum í jafnteflinu gegn West Brom í ensku úrvalsdeildinni í dag.

West Brom tók forystuna í upphafi leiks en Bruno Fernandes jafnaði fyrir Man Utd með glæsilegu marki.

Í seinni hálfleiknum féll Maguire í teignum og Craig Pawson benti á punktinn. Hann fór hins vegar upp að VAR-skjánum og skoðaði atvikið. Eftir það dæmdi hann markspyrnu.

Maguire telur að stjórar hjá öðrum félögum hafi haft áhrif á dómara í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool Echo telur að þessu sé beint í áttina að Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, sem skaut á Man Utd eftir tap gegn Southampton í byrjun ársins.

„Ég heyri núna að Man Utd hefur fengið fleiri víti á tveimur árum en við höfum fengið á fimm og hálfu ári. Ég veit ekki hvort það sé hægt að kenna mér um það eða hvernig það getur gerst," sagði Klopp.

Eftir leikinn í dag sagði Maguire: „Allt frá því að fólk frá öðrum félögum fór að tala um okkur, þá höfum við fengið nákvæmlega ekki neitt frá dómurum eða VAR. Í augnablikinu erum við að spila án þeirra og við verðum því að passa upp á að ákvarðanir dómara eða VAR ráði ekki úrslitum."

„Ég var handviss um að við værum að fara að fá vítaspyrnu en ákvarðanirnar eru að falla gegn okkur núna. Við verðum að gera meira til að vinna leiki," sagði Maguire.

Reglurnar
Maguire var rangstæður þegar boltinn kom inn á teiginn en þeir í VAR-herberginu virtust ekki einbeita sér mikið að því. Brotið var aðeins skoðað, eða þannig leit það alla vega út fyrir sjónvarpsáhorfendur.

Ole Gunnar Solskjær, stjóra Man Utd, fannst skrítið að þeir hafi ekki skoðað rangstöðu. Reglurnar eru hins vegar þannig að ef brotið er á leikmanni áður en hann spilar eða reynir að spila boltanum, eða áður en hann fer í einvígi um boltann þá er það brot.

„Hann er ekki rangstæður þangað til hann reynir við boltann. Hann var ekki rangstæður þegar hann féll," skrifar fjölmiðlamaðurinn Simon Stone á Twitter.

Það var því bara ákveðið að þetta var ekki brot. Smelltu hérna til að sjá myndband af atvikinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner