þri 14. mars 2023 10:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sautján ára Daníel Tristan skoraði sigurmarkið - Elías í varaliðinu
Daníel Tristan Guðjohnsen.
Daníel Tristan Guðjohnsen.
Mynd: Malmö
Hinn 17 ára gamli Daníel Tristan Guðjohnsen skoraði sigurmarkið með U21 liði Malmö er liðið vann sigur gegn Trelleborg í gær.

Daníel var í byrjunarliðinu og skoraði sigurmarkið á 74. mínútu leiksins.

Daníel Tristan er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnhildar Sveinsdóttur, en hann er fæddur árið 2006.

Hann er uppalinn á Spáni og spilaði með unglingaliði Barcelona áður en hann færði sig yfir til Real Madrid fyrir fjórum árum. Hann þykir gríðarlega efnilegur og stóð hann sig vel í akademíunni hjá Madrídarstórveldinu.

Hann hefur núna verið að vekja athygli hjá unglingaliðum Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð, og fékk að spreyta sig í æfingaferð með aðalliðinu á dögunum. Hann er núna að spila upp fyrir sig með U21 liðinu.

Elías spilaði með varaliði Midtjylland
Þá voru tveir Íslendingar að spila með varaliði danska félagsins Midtjylland á æfingamóti í gær. Liðið mætti Bröndby og vann þar 2-0 sigur.

Markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson fær ekki mörg tækifæri núna með aðalliðinu og hann stóð vaktina hjá varaliðinu í gær. Hann hélt marki sínu hreinu. Þá spilaði U19 landsliðsmaðurinn Daníel Freyr Kristjánsson einnig með Midtjylland í leiknum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner