Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 15. mars 2023 21:59
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool er úr leik - Ekkert fær stöðvað Osimhen
Karim Benzema gerði eina mark leiksins
Karim Benzema gerði eina mark leiksins
Mynd: Getty Images
Liverpool er úr leik í Meistaradeildinni
Liverpool er úr leik í Meistaradeildinni
Mynd: Getty Images
Victor Osimhen skoraði tvö í sigri Napoli
Victor Osimhen skoraði tvö í sigri Napoli
Mynd: Getty Images
Evrópumeistarar Real Madrid eru komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að liðið lagði Liverpool, 1-0, á Santiago Bernabeu í kvöld, en samanlagt vannst einvígið, 6-2. Liverpool er úr leik.

Liverpool þurfti að vinna með að minnsta kosti þriggja marka mun til að knýja fram framlengingu. Það þarf kraftaverk gegn sterku liði eins og Real Madrid, eitthvað sem hefur áður tekist hjá Liverpool, en það var ekki sagan í kvöld.

Markverðirnir Thibaut Courtois og Alisson voru báðir vel vakandi í fyrri hálfleiknum. Courtois varði frá Darwin Nunez á 7. mínútu og sjö mínútum síðar þurfti Alisson að hafa sig allan í að verja frá Vinicius Junior sem lét vaða af stuttu færi.

Eduardo Camavinga, miðjumaður Madrídinga, átti hættulegasta færi heimamanna í fyrri hálfleiknum er hann skaut boltanum við vítateigslínuna og í átt að marki en Alisson gerði vel og varði í slá.

Þegar tólf mínútur voru eftir af hálfleiknum keyrði Nunez af vinstri kantinum og í átt að marki áður en hann lét vaða en Courtois skutlaði sér á hárréttum tíma og náði að blaka boltanum frá.

Liverpool tókst ekki að skapa sér mikið í síðari hálfleiknum á meðan Real fékk nokkra fína sénsa. Markið kom á endanum og var það Ballon d'Or-sigurvegarinn Karim Benzema sem gerði markið.

Eftir gott spil fékk Vinicius boltann í teignum og ætlaði að reyna skot en rann til. Hann náði þó að pota boltanum til hægri á Benzema sem skoraði í opið markið.

Madrídingar eru því komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar en Liverpool er úr leik.

Napoli vann öruggan 3-0 sigur á Eintracht Frankfurt og fer samanlagt áfram 5-0 úr leikjunum tveimur. Þetta er í fyrsta sinn sem Napoli kemst í 8-liða úrslit keppninnar.

Heimamenn voru með öll tök á leiknum og sköpuðu sér urmul af hættulegum færum í fyrri hálfleik og það gat bara endað á einn veg — með marki. Victor Osimhen gerði það í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir fyrirgjöf frá Matteo Politano.

Hann gerði þá annað mark í upphafi þess síðari eftir sendingu frá Giovanni Di Lorenzo áður en Piotr Zielinski skoraði úr vítaspyrnu eftir að Djibril Sow braut af sér í teignum.

Fyllilega verðskuldaður sigur Napoli sem fer í 8-liða úrslitin með Real Madrid.

Úrslit og markaskorarar:

Real Madrid 1 - 0 Liverpool
1-0 Karim Benzema ('78 )

Napoli 3 - 0 Eintracht Frankfurt
1-0 Victor Osimhen ('45 )
2-0 Victor Osimhen ('53 )
3-0 Piotr Zielinski ('64 , víti)
Athugasemdir
banner
banner