„Þetta verður ekki sárara en þetta" Segir Davíð Smári, Þjálfari Vestra, eftir 1-0 tap gegn Stjörnunni í dag.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 0 Vestri
Vestramenn voru mjög nálægt því að sækja úrslit í Garðabæinn en Stjörnumenn skoruðu undir lokinn eftir að William Eskelinen fékk dæmda á sig vítaspyrnu.
„Ég er nú ekki alveg viss um að þetta hafi verið víti. Það er óhætt að segja að Vestraliðið átti töluvert meira skilið en að tapa þessum leik. Við fengum töluvert fleiri færi, þeir eiga tvö skot á markið. Við þurfum að nýta færin betur en ég er gríðarlega stoltur og ánægður með liðið."
Vestramenn áttu, eins og Davíð kemur inná, líklega hættulegri færi í dag og byrjuðu leikinn til að mynda af miklum krafti.
„Við vorum sterkari aðilinn mest allan fyrri hálfleikinn en svo kom þreyta í okkur og við vorum lítið með boltann sem að er hægt að gagnrýna. Við þurfum að gera betur og vera klínískari fyrir framan markið, það er það sem situr eftir."
Nú er hefðbundinni deildarkeppni lokið og komin tími á tvískiptingu en Vestramenn eru í fallsæti og að heyja lífróður fyrir sæti sínu í Bestu deildinni.
„Ég segi það núna og segi það aftur að það er gríðarlega erfitt að spila við Vestraliðið. Við erum gríðarlega sterkir varnarlega og góða menn fram á við sem eru að toppa núna. Við erum að stilla upp sama liðinu núna trekk í trekk og það er kominn smá taktur í okkur. Það er hellingur að byggja á en staðan er alvarleg."
Athugasemdir