„Bara frábært stig að stoppa blæðinguna. Við vorum búnir að tapa fjórum leikjum í röð en mér fannst við eiga ekkert mikið skilið, sérstaklega eftir fyrri hálfleikinn. Við vorum bara undir í öllu í fyrri hálfleiknum. Heilt yfir erum við sáttir að ná stig út úr þessu eftir að hafa lent tvisvar undir. Það sýnir karakter og vilja. Við vorum slakir í dag að mínu mati en náum í stig sem kemur okkur í 7. sæti.“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir 3-3 jafntefli við FH í dag.
Lestu um leikinn: Fram 3 - 3 FH
Fram var 1-0 yfir þegar uppbótartíminn í fyrri hálfleik byrjaði en þeir fóru inn í hálfleikinn 2-1 undir.
„Það var gífarlega svekkjandi ég var að biðja menn um að halda út hálfleikinn því FH-ingar voru að herja á okkur og við náum bara ekki að loka á þá. Í hvert sinn sem við unnum boltann gáfum við þeim hann aftur og náðum ekki að halda tuðrunni, ólíkir sjálfum okkur í þessum leik. Það gekk bölvanlega að spila boltanum í dag.“
FH fengu víti í lokin þegar þeir tóku foyrstuna, 3-2. Rúnar var ekki sammála þeim dómi.
„Það er ekki víti. 100%, ég er búinn að sjá það aftur. Brynjar sparkar í boltann á undan Sigurði og kárt brot á Sigga og gult spjald. Ég sá ekki vítið sem við fengum en mér skilst að það hafi ekki verið mikil vítaspyrna heldur. Kannski jafnast þetta út. Dómararnir eru að gera sitt besta og eru ekki að leika sér að dæma vitlaust. Þetta er bara hluti af leiknum og það þýðir ekkert að vera að væla og skæla yfir því, hann er að gera sitt besta og mér fannst þeir dæma þennan leik nokkuð vel í dag.“
Afhverju var Alex Freyr settur á punktinn?
„Hann sagðist vera besta vítaskyttan. Við vorum hérna á æfingu í gær að fíflast með þetta hver ætti að taka vítin því Fred klúðraði síðast og Gummi er búinn að brenna einu sinni í sumar og síðan eina eða tvær í bikarnum líka. Það var fugl sem kom að mér í gær og sagði að Alex væri góð vítaskytta, það var einhver sem var tilbúin að bakka það upp. Þótt Kennie átti að taka hana fékk Alex að taka hana og kláraði vel.“
Rúnar segir að þetta stig hjálpi þeim mikið komandi inn í úrslitakeppnina.
„Þetta stig skiptir okkur miklu máli. Þetta stoppar blæðinguna og við þurfum að sýna að við getum unnið leiki upp á sjálfstraust liðsins. Síðan erum við búnir að vera óheppnir með meiðsli og takturinn búinn að riðlast dálítið hjá okkur. Við erum mjög vonsviknir að hafa ekki náð topp 6. En við þurfum að halda áfram. Við erum ekki hólknir ennþá, við þurfum að horfa á þessa leiki eins og við séum í fallbaráttu svo við lendum ekki í henni.“
Nánar er rætt við Rúnar í spilaranum hér að ofan.