Lewis-Skelly á blaði fjögurra félaga - Mörg stórlið vilja ungstirni Hertha Berlin - Casemiro gæti fengið nýjan samning - Toney til Englands?
   mið 12. nóvember 2025 15:27
Elvar Geir Magnússon
Bakú
„Ég hef sjálfur strögglað við það að sofna“
Hákon Arnar á æfingu í Bakú í dag.
Hákon Arnar á æfingu í Bakú í dag.
Mynd: KSÍ
Það var vel mætt á fréttamannafund Íslands í Bakú.
Það var vel mætt á fréttamannafund Íslands í Bakú.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Undirbúningur íslenska landsliðsins fyrir útileikinn gegn Aserbaísjan hefur ekki bara snúist um fótboltann. Ferðalagið og tímamismunurinn tók sinn toll af mönnum enda er landið á mörkum Asíu. Fjögurra tíma munur er á klukkunni á Íslandi og í Aserbaísjan.

Hákon Arnar Haraldsson sagði frá því á fréttamannafundi að lítill tími hefði gefist til að kynnast Bakú. Menn hafa verið að stilla sig af eftir ferðalagið.

„Við höfum bara verið hérna í tvo daga, tímamismunurinn og ferðalagið, það hefur verið bras að koma okkur í gang," segir Hákon.

Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari segir að þessir þættir hafi augljóslega áhrif á undirbúning liðsins.

„Allir útileikir eru mjög erfiðir og svo þarftu að taka inn ferðalögin. Þetta á ekki að hljóma eins og einhver afsökun. Ég hef verið að ströggla sjálfur við það að sofna síðustu tvær nætur. Maður sér að leikmenn eru sjálfir að koma sér í gírinn en það þarf að leyfa líkamsklukkunni að jafna sig," segir Arnar.

„Við höfum fengið tíma, góða næringu og erum í góðu yfirlæti á góðu hóteli svo við verðum klárir á morgun. En það er smá kúnst að venjast þessu."

Skrítin fjarlægð
Eins og fjallað hefur verið um þá er þröngt á þingi á keppnisvellinum í Bakú. Aðeins eru um 2 metrar frá varamannabekknum að vellinum sjálfum. Arnar var spurður út í aðstæður á fréttamannafundinum.

„Þetta er fínasta gras og það verða vafalítið læti á morgun. Það er skrítin fjarlægð frá hliðarlínunni að varamannabekknum, ég hef ekki séð þetta svona áður en grasið er gott og grænt. Það skiptir öllu máli," segir Arnar og slær svo á létta strengi:

„Þetta er óvenjulegt, ég veit ekki hvort þetta standist lög eða reglur. Við kærum kannski ef úrslitin verða okkur ekki hagstæð," sagði hann brosandi.

Gefur okkur ekkert fyrir morgundaginn
Hákon Arnar var spurður að því á fréttamannafundinum við hverju íslenska liðið megi búast frá Aserum á morgun.

„Ég býst við að þeir leggist niður eins og þeir hafa verið að gera. Þeir eru á heimavelli og vilja gera betur en síðast, hefna fyrir 5-0. Við þurfum líklega að brjóta þá niður og halda áfram að keyra á þá," segir Hákon sem var spurður að því hvort fyrri leikurinn gegn Aserum hafi verið einn sá skemmtilegasti sem hann hafi spilað í landsliðstreyjunni?

„Mögulega sá skemmtilegasti, sérstaklega seinni hálfleikurinn. Manni leið eins og allt virkaði; sendingar, skot... við vorum gjörsamlega með þá. En það er langt síðan og það gefur okkur ekkert fyrir morgundaginn."

Leikur Aserbaísjan og Íslands hefst klukkan 17 að íslenskum tíma á morgun, 21 að staðartíma. Ísland þarf sigur í Bakú til að vera öruggt með úrslitaleik gegn Úkraínu í lokaumferðinni á sunnudaginn, um sæti í umspilinu. Ef Úkraína tapar gegn Frakklandi mun Íslandi þá nægja jafntefli í þeim leik.
Landslið karla - HM 2026
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Frakkland 4 3 1 0 9 - 3 +6 10
2.    Úkraína 4 2 1 1 8 - 7 +1 7
3.    Ísland 4 1 1 2 11 - 9 +2 4
4.    Aserbaísjan 4 0 1 3 2 - 11 -9 1
Athugasemdir
banner