fim 16. mars 2023 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Draugamark Luis Garcia situr enn í Mourinho - „Eina skiptið sem ég hef séð leikvang skora mark"
Jose Mourinho var bugaður eftir þennan umtalaða leik
Jose Mourinho var bugaður eftir þennan umtalaða leik
Mynd: Getty Images
Draugamark Luis Garcia í leik Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrir 18 árum situr enn í portúgalska þjálfaranum Jose Mourinho.

Leikur Liverpool og Chelsea var eftirminnilegur. Eina mark leiksins kom á 4. mínútu.

Steven Gerrard átti laglega sendingu inn fyrir á Milan Baros en tékkneski markvörðurinn Petr Cech tók hann úr umferð áður en Garcia mætti í frákastið og stýrði boltanum í átt að marki.

William Gallas hreinsaði frá en markið var dæmt gott og gilt þó það hafi verið erfitt að dæma um það hvort allur boltinn hafi farið inn eða ekki. Draugamark á Anfield.

Liverpool hélt út eftir nokkur góð færi frá Chelsea. Eiður Smári Guðjohnsen átti meðal annars dauðafæri undir lok leiksins en skaut boltanum framhjá. Liverpool fór því í úrslit.

Mourinho, sem stýrði Chelsea á þessum tíma, er enn bitur yfir þessu marki. Spurning hvort hann hefði frekar viljað víti og rautt á Cech?

„Á endanum er það völlurinn sem talar, því eina skiptið sem ég hef séð leikvang skora mark var í undanúrslitum Meistaradeildarinnar árið 2005,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir leik Real Sociedad og Roma í Evrópudeildinni.

„Leikvangur Liverpool skoraði mark því boltinn fór ekki inn en þeir voru með svo mikil læti að þeir skoruðu. Leikvangurinn hjálpar og samkvæmt tölfræðinni er heimaliðið með jákvæðari úrslit en útiliðið en þú þarft að spila þessa leiki,“ sagði Mourinho.


Athugasemdir
banner
banner
banner