fim 16. mars 2023 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Haukar ráða 24 ára gamlan þjálfara (Staðfest)
Hörður Bjarnar Hallmarsson
Hörður Bjarnar Hallmarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Haukar hafa ráðið nýjan þjálfara fyrir kvennalið félagsins en Hörður Bjarnar Hallmarsson er tekinn við starfinu af Salih Heimir Porca.

Haukar féllu niður í 2. deild síðasta sumar en Salih Heimir tók við liðinu að tímabilinu loknu. Hann lét hins vegar af störfum á dögunum og mun því ekki stýra liðinu í sumar.

Í hans stað hafa Haukar ráðið Hörð Bjarnar til starfa en hann er aðeins 24 ára gamall. Þetta er hans fyrsta starf í meistaraflokki.

Hörður er með UEFA-B gráðu og hefur þjálfað ýmsa yngri flokka innan knattspyrnudeildar Hauka síðustu fjögur ár, auk þess að sinna afreks- og séræfingum. Hann hefur náð góðum árangri með 3. flokk kvenna síðustu þrjú ár.

„Stjórn knattspyrnudeildar Hauka er afar spennt fyrir þessari ráðningu enda þekkir Hörður ungan leikmannahóp meistaraflokks mjög vel auk þess sem hann er afar efnilegur og metnaðarfullur þjálfari," segir í tilkynningu Hauka.

Fyrsti leikur meistaraflokks kvenna undir stjórn Harðar var síðastliðinn mánudag er liðið sigraði Álftanes 2-0 í Lengjubikarnum.

Haukar hefja leik í 2. deild kvenna þann 2. maí næstkomandi er liðið mætir KH á Ásvöllum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner