Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 16. mars 2023 16:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jói Kalli um Ísak: Hann ætlar sér ekkert að fara á láni
Icelandair
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson er í A-landsliðshópnum þrátt fyrir að hafa ekki verið í stóru hlutverki með FC Kaupmannahöfn í Danmörku upp á síðastið.

Þessi 19 ára gamli leikmaður hefur ekki verið í stóru hlutverki með FCK á tímabilinu og er það áhyggjuefni fyrir íslenska landsliðið. Það er ekki langt síðan hann var orðaður við stór félög á borð við Liverpool og Manchester United, en staða hans er núna ekki góð í Danmörku.

Eftir að danska úrvalsdeildin hófst aftur eftir vetrarfrí þá hefur Ísak aðeins leikið 16 mínútur í dönsku deildinni.

Jóhannes Karl Guðjónsson, faðir Ísaks og aðstoðarþjálfari landsliðsins, var spurður út í stöðu leikmannsins í dag.

„Eins og fyrir alla unga leikmenn er þetta krefjandi, þetta er erfið staða. Hann höndlar það á þann hátt sem hann kann, hann gerir það vel í raun og veru. Hann nýtir tímann til að æfa enn betur. Hann ætlar að vera þolinmóður og bíða eftir tækifærinu," sagði Jói Kalli í samtali við Fótbolta.net.

„Þetta er erfitt. Hann er í mikilli samkeppni við fyrirliða liðsins og líka við Hákon (Arnar Haraldsson) sem hefur verið að standa sig frábærlega. Svo eru þarna tveir aðrir reyndir menn sem eiga leiki fyrir danska landsliðið. Hann vissi það fyrir fram að lið sem ætlar að vinna dönsku deildina á hverju ári þarf að vera með stóran og öflugan hóp. Þú getur alveg lent í því að það er einhver á undan þér í byrjunarliðið en þú þarft bara að vera þolinmóður og hafa trú á sjálfum þér. Það er stundum erfitt að hafa trú á sjálfum sér þegar þú ert ekki að spila, en hann er sterkur andlega og klár í þetta verkefni."

„Þeir ætla sér að vinna deildina og Ísak ætlar að taka þátt í því. Vonandi verða þeir tvöfaldir meistarar. Hann bíður á hliðarlínunni og er tilbúinn þegar tækifæri gefst."

Er möguleiki á því að Ísak fari annað á láni?

„Ég held að lán sé ekkert inn í myndinni. Eiginlega allir gluggar eru lokaðir og hann kemst ekkert. Hann ætlar sér heldur ekkert að fara, hann ætlar að berjast fyrir sínu sæti og vera lykilmaður í FCK. Það er auðvitað pirrandi að vera ekki í byrjunarliðinu og fá þessar mínútur sem þú vilt fá en að sama skapi er hann einum leik frá því að ná hundruðasta atvinnumannaleiknum. Hann getur náð því áður en hann verður tvítugur. Hann er með gríðarlega mikla reynslu fyrir ungan leikmann. Staðan er bara svona og þú þarft að höndla það sem leikmaður, og ég veit að Ísak gerir það vel."

Jói Kalli talaði einnig um að þessi erfiði kafli gæti gert Ísak enn sterkari, en viðtalið við þjálfarann verður birt í heild sinni í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag.

Sjá einnig:
„Landsliðsins vegna vonar maður að staða hans muni breytast fljótt"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner