Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 16. mars 2023 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Staðan var orðin þannig að hann var ekkert inn í myndinni hjá okkur"
Gunnar Gunnarsson.
Gunnar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jannik Pohl í leik með Fram á síðasta ári.
Jannik Pohl í leik með Fram á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Gunnar Gunnarsson yfirgaf herbúðir Fram á dögunum þar sem samningi hans var rift. Samningurinn var út tímabilið 2023 en honum var rift snemma.

Gunnar hefur verið hjá Fram síðan 2019 þegar hann kom frá Þrótti um mitt tímabil. Hann var byrjunarliðsmaður þegar Fram vann Lengjudeildina með yfirburðum tímabilið 2021 og lék á síðasta tímabilið sjö leiki þegar Fram var nýliði í Bestu deildinni.

Gunnar er 29 ára miðvörður sem leikið hefur með Hamri, Gróttu, Val, Haukum, Þrótti og Fram á sínum meistaraflokksferli.

Hann var ekki lengur inn í myndinni hjá þjálfurum liðsins og því var tekin ákvörðun um að rifta samningnum. Fram er með allavega fjóra aðra miðverði í sínum leikmannahópi.

„Gunni hefur verið í minna hlutverki hjá okkur undanfarið, frá því seinni partinn í fyrra. Hann hefur verið ósáttur við sína stöðu og á endanum er þetta samkomulag um að ljúka samstarfinu. Hann getur þá gert eitthvað annað ef hann hefur áhuga á því," sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Staðan var orðin þannig að hann var ekkert inn í myndinni hjá okkur."

Vonandi heldur hann áfram á þeirri braut
Danski sóknarmaðurinn Jannik Pohl gekk í raðir Fram fyrir síðasta sumar og skoraði átta mörk í 19 deildarleikjum. Hann framlengdi samning sinn við Fram síðasta nóvember, en heyrst hefur að áhugi sé erlendis - í Danmörku - á leikmanninum sem er með flotta ferilskrá.

„Ég hef ekki heyrt af því, en maður áttar sig á því að hann er með stóran prófíl. Hann er farinn að spila reglulega og skora mörk, og það er ekkert óeðlilegt ef það fréttist. Það hefur ekkert neitt formlegt komið inn á borð hjá mér," sagði Jón.

Áður en Pohl kom hingað til lands hafði hann verið að glíma við meiðsli og hafði þróað með sér taugavandamál út af því. Hann náði samt að spila mikið og gerði vel. Hann hefur verið að líta vel út í vetur.

„Hann endaði vel í fyrra. Það tók tíma fyrir hann að ná sér og ná áttum. Hann endaði mjög vel í fyrra og er allt annar leikmaður í dag en þegar hann kom til okkar í fyrra. Vonandi heldur hann áfram á þeirri braut."

Fram endaði í níunda sæti Bestu deildarinnar í ár og það verður fróðlegt að fylgjast með liðinu í ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner