fim 16. september 2021 16:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Berglind þarf að grípa tækifærið
Icelandair
Berglind Björg, leikmaður Hammarby.
Berglind Björg, leikmaður Hammarby.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elín Metta Jensen glímir við meiðsli og er ekki í íslenska landsliðshópnum sem undirbýr sig fyrir leik gegn Hollandi á þriðjudag.

Tilkynnt var með meiðsli Elínar í upphafi vikunnar og var Svava Rós Guðmundsdóttir, leikmaður Bordeaux, kölluð inn í hópinn í staðinn.

Þær Elín Metta og Berglind Björg Þorvaldsdóttir hafa spilað sem framherjar í liðinu undanfarin ár. Undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar var tilfinningin að Elín Metta væri númer eitt í þeirri stöðu.

Berglind á að baki 52 landsleiki og hefur í þeim skorað sjö mörk. Elín Metta á að baki 58 leiki og skorað í þeim sextán mörk. Frá því árið 2019 hófst hefur Elín komið við sögu í 22 leikjum og Berglind hefur komið við sögu í átján leikjum.

Elín Metta glímir við meiðsli, hvaða breyting er það á liðinu að fá inn Berglindi Björgu? Er hún allt öðruvísi leikmaður að þínu mati?

„Já, þær eru ólíkir leikmenn, það er ekkert vafamál. Þær hafa held ég spilað nákvæmlega jafnmargar mínútur í leikjunum undir minni stjórn. Berglind þarf að grípa tækifærið núna og nota þennan leik til að stimpla sig enn betur inn," sagði Þorsteinn.

„Berglind er góð í að halda bolta, góð í að spila boltanum fljótt frá sér. Elín Metta er fín í að halda boltanum, aðeins lengur að spila honum frá sér en heilt yfir verið ágætis jafnvægi hjá okkur með þær tvær. Svava Rós kemur inn sem senter/kantmaður og leysir Elínu af hólmi," bætti landsliðsþjálfarinn við.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner