Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 16. október 2021 13:32
Brynjar Ingi Erluson
England: Firmino og Salah stálu senunni í stórsigri á Watford
Mo Salah fagnar marki sínu ásamt Roberto Firmino og Trent Alexander-Arnold
Mo Salah fagnar marki sínu ásamt Roberto Firmino og Trent Alexander-Arnold
Mynd: Getty Images
Roberto Firmino skoraði þrennu
Roberto Firmino skoraði þrennu
Mynd: Getty Images
Watford 0 - 5 Liverpool
0-1 Sadio Mane ('8 )
0-2 Roberto Firmino ('37 )
0-3 Roberto Firmino ('52 )
0-4 Mohamed Salah ('54 )
0-5 Roberto Firmino ('90 )

Mohamed Salah fór mikinn er Liverpool vann Watford, 5-0, á Vicarage Road í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Hann lagði upp fyrsta markið og skoraði svo síðasta mark leiksins eftir frábæra rispu. Roberto Firmino skoraði þá þrennu.

Fyrsta mark leiksins kom á 8. mínútu. Salah fékk boltann á hægri vængnum, sá Sadio Mane sem var vinstra megin við teiginn. Egyptinn átti glæsilega utanfótarsendingu fyrir lappirnar á Mane og gat senegalski landsliðsmaðurinn ekki gert annað en að nýta færi sitt.

Salah var sífellt að ógna í fyrri hálfleiknum og sýndi skemmtilega takta áður en Roberto Firmino bætti við öðru marki Liverpool. James Milner fékk boltann vinstra megin í teignum, sá Firmino sem þurfti ekki annað en að pikka í boltann til að koma honum í netið.

Stuttu síðar átti Naby Keita fast skot í slá af löngu færi. Staðan í hálfleik 2-0 og ekki besta byrjunin hjá Claudio Ranieri sem stjóri Watford.

Firmino bætti við öðru marki sínu þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Andy Robertson átti sendingu sem var ætluð Salah en Craig Cathcart komst fyrir boltann. Það vildi ekki betur til en að Firmino kom á ferðinni og skoraði örugglega framhjá Foster.

Tveimur mínútum síðar skoraði Salah svo stórkostlegt mark. Hann fékk boltann í teignum, lék á tvo varnarmenn og fór svo illa með annan áður en hann kom boltanum vinstra megin í markið. Hreint út sagt ótrúlegt mark og virðist vera sem svo að Salah er í besta formi lífs síns í augnablikinu.

Firmino fullkomnaði síðan þrennu sína í uppbótartíma eftir fyrirgjöf frá Neco Williams. Brasilíumaðurinn verið frábær í byrjun leiktíðar og er nú með fjögur deildarmörk í sex leikjum.

Lokatölur 5-0 í dag og Liverpool á toppinn með 18 stig. Liðið er með 16 plús í markatölu. Watford er á meðan í 15. sæti með 7 stig.


Athugasemdir
banner
banner
banner