mán 16. desember 2019 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
De Bruyne um vandamálin í varnarleik Arsenal
Mynd: Getty Images
Kevin De Bruyne var maður leiksins er Manchester City heimsótti Arsenal á Emirates í gær.

De Bruyne skoraði tvö og lagði eitt upp í fyrri hálfleik og stóðu Englandsmeistararnir uppi sem sigurvegarar, 0-3.

Að leikslokum var De Bruyne spurður út í vandræðin í varnarleik Arsenal og telur hann sóknarmenn liðsins bera sökina.

„Sóknarmennirnir þeirra reyna að pressa en þegar við komumst framhjá fjórum fremstu þá koma þeir ekki aftur til að hjálpa vörninni. Þeir geymdu alltaf fjóra menn frammi, nema Martinelli sem kom stundum til baka," sagði De Bruyne.

„Þetta þýðir að við fáum mikið meira pláss til að athafna okkur í sóknarleiknum og það gerir starfið mun erfiðara fyrir varnarmennina. Það eru bara sex varnarmenn eftir og þeir eiga í basli með að sjá um svona stórt svæði því andstæðingarnir geta sótt úr öllum áttum."

Man City er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórtán stigum eftir toppliði Liverpool.

Arsenal er í níunda sæti, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti og sjö stigum frá fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner