banner
   fös 17. júní 2022 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enn að bíða eftir almennilegri frammistöðu hjá Alfons
Alfons Sampsted.
Alfons Sampsted.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted er orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu, í stöðu hægri bakvarðar.

Alfons er búinn að vera einn af máttastólpunum í liði Bodö/Glimt síðustu ár og hjálpað liðinu að verða Noregsmeistari tvisvar. En hann hefur ekki enn náð að sýna sitt rétta andlit með íslenska landsliðinu. Í síðasta glugga fékk hann lægstu meðaleinkunnina af leikmönnum íslenska liðsins.

„Ef ég fer til baka, svona 3-4 ár. Þá horfi ég á Birki Má Sævarsson og svo Alfons Sampsted næstan inn. ‘Kannski eftir 1-2 ár erum við komin með bakvörð til framtíðar’ en ég er enn að bíða eftir almennilegri frammistöðu frá Alfons í landsliðinu,” sagði Sæbjörn Þór Steinke í Innkastinu.

„Ég hef ekki séð heilsteypta frammistöðu - sóknar-og varnarlega - frá því hann kom inn í liðið. Samt er ég að sjá hann vinna Noregsmeistaratitilinn og rústa Roma á heimavelli. Ég skil þetta ekki.”

„Það er eitthvað við leikskipulag Bodö/Glimt sem passar miklu betur fyrir Alfons en íslenska landsliðið,” sagði Elvar Geir Magnússon.

„Það er alveg augljóst. Manor Salomon, sem er á leið til Fulham í Premier League, fór frekar illa með Alfons. En Alfons er alltaf að verjast einn á einn, sem við erum mjög óvön að sjá í íslenska landsliðinu. Við sáum alveg Birki verjast einn á einn, en hann vann oft með Jóa Berg með sér,” sagði Tómas Þór Þórðarson.

Alfons er bara 24 ára gamall og það er nægur tími fyrir hann til þess að bæta sinn leik með landsliðinu. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er frábær hægri bakvörður með félagsliði sínu.
Innkastið - Landsliðið kvatt og Besta deildin boðin velkomin
Athugasemdir
banner
banner