lau 17. október 2020 16:39
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Hann verður án vafa tekinn með til Ungverjalands"
Icelandair
Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Guðmundsson ræddi um íslenska landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolti.net og var ánægður með svarið sem strákarnir okkar gáfu gegn Belgum.

„Þarna sáum við að menn voru búnir að vinna sig út úr spennufallinu og þarna sáum við að menn sem höfðu spilað minna voru 'all in'," sagði Kristján.

Margir héldu að landsliðsferill Birkis Más Sævarssonar væri á enda en hann byrjaði gegn Belgum, skoraði og átti flottan leik. Birkir var ekki notaður gegn Rúmenum og Dönum.

„Birkir var búinn að horfa á hina tvo leikina og vera í kringum hópinn, hann kemur inn í liðið að springa úr testósteróni yfir að fá að spila og maður sá það líka. Það er svo mikil orka sem þú færð af því að fylgjast með félögunum af bekknum og langa rosalega að vera með. Þarna fór allt af stað," segir Kristján.

Ísland leikur í næsta mánuði úrslitaleik um að komast á EM alls staðar, leikið verður gegn Ungverjalandi í Búdapest. Kristján er viss um að Birkir Már verði í hópnum.

„Hann verður án vafa tekinn með til Ungverjalands. Hann hefur stigið þvílíkt upp með Valsmönnum og innkoma hans í þennan Belgíuleik var framúrskarandi. Það er gott og gaman að hafa hann í kringum þetta og hann gefur öllum reynslu og skemmtilegheit. Við þurfum á honum að halda í Ungverjalandi."

Kristján segir að leikurinn gegn Belgíu hafi annars ekki verið mikið fyrir augað.

„Mér fannst leikurinn ekki sérstakur annars. Þetta var þriðji leikur á sex dögum hjá báðum liðum og það sást. Belgarnir gerðu það sem þurftu og ekkert meira," segir Kristján.
Útvarpsþátturinn - Landsliðið, ástandið og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner