Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 18. mars 2021 17:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„A-liðið er alltaf toppurinn á píramídanum og þar vill maður vera"
Icelandair
Það er ekki undir mér komið að velja liðið og ekki undir mér komið að gera skiptingarnar
Það er ekki undir mér komið að velja liðið og ekki undir mér komið að gera skiptingarnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór kom ekki við sögu gegn Zenit í gær
Arnór kom ekki við sögu gegn Zenit í gær
Mynd: Getty Images
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór í síðustu undankeppni
Arnór í síðustu undankeppni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Sigurðsson er í íslenska A-landsliðshópnum sem mætir Þýskalandi, Liechtenstein og Armeníu í komandi landsleikjaglugga.

Arnór er 21 árs og getur spilað sem sóknarmaður og kantmaður. Hann á að baki ellefu A-landsleiki og fimm U21 leiki. Arnór er leikmaður rússneska félagsins CSKA í Moskvu og ræddi hann við Fótbolta.net í dag.

Kom það þér á óvart að vera valinn í A-landsliðið í þessum glugga?

„Nei, það kemur mér ekki á óvart en það er alltaf sama stoltið að vera valinn. Ég er ánægður með að fá þetta traust frá nýjum landsliðsþjálfurum. Ég er stoltur að vera fara inn í mína aðra undankeppni með liðinu, síðast var það EM og núna er það HM, ég er mjög spenntur og gíraður,“ sagði Arnór.

Vonastu eftir því að vera í stærra hlutverki en í síðustu undankeppni?

„Já, auðvitað vonast maður eftir því og vonast eftir því að fá eitthvað hlutverk. Ég er með mín markmið og það er klárlega að fá stærra hlutverk í þessu liði. Ég veit að það kemur ekkert að sjálfu sér, ég þarf að berjast fyrir því eins og allir aðrir."

„Ég er kominn vel inn í hópinn, veit um hvað þetta snýst og veit hvað þjálfararnir vilja fá frá manni. Það er spennandi að fara vinna með nýjum þjálfurum, þeir eru kannski með einhverjar nýjar áherslur og nýjar leikaðferðir. Ég myndi segja að það væri mjög spennandi verkefni framundan.“


Hvernig líst þér á að mæta Þýskalandi í fyrsta leik?

„Það er alltaf skemmtilegt að spila á móti stóru liðunum. Við þurfum að koma saman og þeir Addi og Eiður eru væntanlega með eitthvað upplegg varðandi hvernig við viljum spila á móti Þjóðverjunum. Við vitum að þeir eru með svakalegt lið en við getum unnið hvaða lið sem er eins og við höfum sýnt. Þetta er spennandi og á sama tíma vitum við auðvitað að þetta er erfitt verkefni.“

Áður en ég spyr þig almennt út í lokamótið þá aðeins að þér sjálfum fyrst. Ertu svekktur að geta ekki tekið þátt í bæði verkefni A-landsliðsins og svo þessu lokamóti með U21?

„Þetta kemur ekki oft fyrir, í raun aldrei fyrir að aðalliðið sé að spila á sama tíma og það er lokamót hjá U21. A-liðið er alltaf toppurinn á píramídanum og þar vill maður vera. Ég er þar og er þvílíkt þakklátur og ánægður með það. En á sama tíma þá væri gaman að geta tekið þátt þegar U21 er á lokamóti, ég segi það ekki en ég er í þeirri stöðu sem ég vil vera í og ég ætla ekki að kvarta yfir því.“

Ertu spenntur að sjá hvernig strákarnir pluma sig í Ungverjalandi?

„Ég hef fulla trú á strákunum og þekki langflesta sem eru inn í þessum hópi og það verður spennandi að sjá hvernig Davíð [Snorri Jónasson] kemur inn í þetta, hann mun væntanlega halda í það sama og Eiður og Addi voru að gera. Það var gaman að fylgjast með í undankeppninni og verður ennþá skemmtilegra núna þegar þeir eru komnir á stóra sviðið.“

Varð einhver umræða milli þín og landsliðsþjálfaranna að þú yrðir hluti af U21 hópnum á þessu móti?

„Nei, ég í rauninni heyrði ekkert í Davíð og hann ekkert í mér. Mig svona grunaði þá að þetta væri lendingin. Ég var búinn að heyra mikið í Adda.“

Hvernig er standið á þér, ertu í topp formi?

„Já, ég myndi segja það. Mér líður mjög vel bæði innan vallar og utan vallar. Við vorum að koma úr undirbúningstímabili þar sem við vorum látnir hlaupa eins og vitleysingar þannig ég er algjörlega klár í þetta verkefni.“

Þú komst ekkert inn á gegn Zenit í gær, kom það þér á óvart? Ertu svekktur með það?

„Alltaf svekktur þegar maður fær ekki að spila. Mér finnst ég hafa sýnt það í síðustu leikjum að ég eigi klárlega að eiga heima í liðinu. En það er ekki undir mér komið að velja liðið og ekki undir mér komið að gera skiptingarnar. Ég þarf að einbeita mér að sjálfum mér, taka einn dag í einu og eina æfingu í einu af því ég veit nákvæmlega hvað ég get og hvert ég stefni," sagði Arnór. Nánar var rætt við Arnór og munu þau svör hans birtast í kvöld hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner