Enski markvarðarþjálfarinn Jamie Brassington hefur skrifað undir samning við KR og mun aðstoða bæði kvenna- og karlalið félagsins.
                
                
                                    Brassington hefur unnið gott starf hjá Þrótti undanfarin ár. Hann þjálfaði markverði í akademíum Burton Albion og Colchester á Englandi áður en hann kom til Þróttar árið 2017. Hann hefur síðan þá starfað í Laugardalnum og lítur á Ísland sem annað heimili sitt. Árið 2021 hóf hann svo störf hjá KSÍ - samhliða Þrótti - við þjálfun markvarða í yngri landsliðum.
í byrjun ársins fór Brassington með íslenska karlalandsliðinu í æfingaferð í Portúgal þar sem Halldór Björnsson, sem hefur verið markvarðarþjálfari í tíð Arnars Þórs Viðarssonar, var fjarri góðu gamni.
Nú hefur hann fært sig um set í íslenska boltanum en hann hefur nú gert samning um að þjálfa hjá karla- og kvennaliði KR ásamt því að koma að unglingastarfi félagsins.
Brassington tilkynnti þetta á Instagram-síðu sinni og sagðist spenntur fyrir komandi tímum.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
         
     
                        
        
         
                    
        
         
                                                                        
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                

