Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   sun 18. október 2020 18:57
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes: Óttaðist að þeir myndu skora sex eða sjö
David Moyes var himinlifandi eftir ótrúlega endurkomu West Ham United gegn Tottenham í dag.

West Ham lenti þremur mörkum undir snemma leiks og náði að jafna með þremur mörkum á lokakaflanum.

„Hálfleiksræðan var mjög erfið. Við vorum 3-0 undir þrátt fyrir að hafa spilað góðan fyrri hálfleik og ég sagði það við strákana. Við breyttum ekki neinu því okkur fannst engra breytinga þörf," sagði Moyes

„Við vorum að spila gegn liðinu sem allir eru að tala um og eftir fimmtán mínútur af leiknum óttaðist ég að þeir myndu skora sex eða sjö. Við getum verið ótrúlega stoltir af þessari endurkomu, þetta eru mikilvæg úrslit og ég vona að stuðningsmenn hafi notið þess að sjá þetta."

Moyes missti sig af gleði þegar Manuel Lanzini skoraði glæsilegt jöfnunarmark á 94. mínútu.

„Ég er nýbúinn að sjá endursýningu af sjálfum mér fagna og þetta minnti mig á David Pleat stundina. Ég þekki einhvern annan (Jose Mourinho) sem hefur sprett meðfram endalínunni og rennt sér svo ég ákvað að vera ekki að herma eftir því."

Moyes er gríðarlega ánægður með sína menn sem eru komnir með sjö stig eftir fimm umferðir og hafa sýnt frábæra takta gegn erfiðum andstæðingum.

„Við höfum verið eins og annað lið eftir Covid pásuna í sumar. Við erum byrjaðir að raða inn mörkunum en þurfum núna að passa varnarleikinn."
Athugasemdir