sun 19. janúar 2020 19:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp: Allir eiga að fagna stöðunni nema við
Mynd: Getty Images
„Þetta er mikill léttir, ég var ánægður með 85-90% af leiknum, við vorum mjög góðir," sagði Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, eftir 2-0 sigur á erkifjendunum í Manchester United.

„Við vorum með yfirburði í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Orkan sem við vorum með inn á vellinum var ótrúleg. Á venjulegum degi hefðum við skorað þrjú mörk í fyrri hálfleiknum."

„United er með augljós gæði, þeir fóru að spila meiri fótbolta og við urðum að verjast. Við gerðum nokkur mistök og leikurinn var opinn."

„Svo skoruðum við magnað, magnað mark undir lokin. Mjög góð tilfinning."

Stuðningsmenn Liverpool voru glaðir í leikslok og sungu um Englandsmeistaratitilinn. Það stefnir allt í það að Liverpool vinni sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 30 ár, en Klopp er ekkert að missa sig.

„Þeir mega syngja, og fólkið hefur sungið þetta lag nokkrum sinnum áður. Það er ekkert vandamál. Allir eiga að fagna stöðunni, nema við. Ekkert hefur breyst. Við erum í sömu stöðu, plús þrjú stig. Ég skal segja ykkur um leið og mér mun fara að líða eitthvað öðruvísi, það er ekki þannig núna," sagði Klopp.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner