Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 19. janúar 2020 16:58
Ívan Guðjón Baldursson
Rodgers svekktur: Undirstöðuatriði að elta mennina sína
Rodgers virtist ekki sáttur með varnarvinnu Youri Tielemans í sigurmarkinu.
Rodgers virtist ekki sáttur með varnarvinnu Youri Tielemans í sigurmarkinu.
Mynd: Getty Images
Brendan Rodgers var sár eftir óvænt tap Leicester gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leicester leiddi í hálfleik eftir mark Harvey Barnes en Chris Wood jafnaði eftir atgang í vítateignum snemma í síðari hálfleik.

Sóknarþungi Leicester var mikill og klúðraði Jamie Vardy vítaspyrnu áður en Ashley Westwood gerði sigurmark Burnley, gegn gangi leiksins.

„Við vorum augljóslega betra liðið og fengum fullt af færum. Þetta var blanda af mögnuðum markvörslum og klúðrum," sagði Rodgers að leikslokum.

Hann var ósáttur með sigurmarkið hjá Burnley þar sem Westwood var einn og óvaldaður í vítateignum. Youri Tielemans, sem kom inn af bekknum, og James Maddison hættu að elta hlaup Westwood við vítateigslínuna.

„Það var enginn að passa hlaup Westwood frá miðjunni, það er algjört undirstöðuatriði í fótbolta að elta mennina sína. Við unnum ekki því markvörðurinn þeirra átti ótrúlegan dag en þegar þú vinnur ekki þá er mikilvægt að passa sig að tapa ekki. Til þess þurfa miðjumennirnir að sinna ýmissi skítavinnu, sem þeir gerðu ekki.

„Það sem mér finnst verst við þetta er að leikmaðurinn þeirra sýndi meiri vilja til að skora heldur en leikmennirnir okkar sýndu til að verjast."


Leicester hefði getað jafnað Manchester City á stigum í öðru sæti deildarinnar með sigri. Stigin eru mikilvæg fyrir Burnley, sem er núna fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir
banner
banner