
The Athletic greinir frá því að Chelsea sé búið að leggja fram tilboð í Pierre-Emerick Aubameyang eftir fundi með leikmanninum og stjórnendum Barcelona.
Athletic segir að Chelsea hafi boðið 15 milljónir punda fyrir Aubameyang, en Börsungar vildu fá 25 milljónir fyrir hann. Til að gera tilboðið sætara fyrir Barca ákvað enska stórveldið að bjóða þeim vinstri bakvörðinn Marcos Alonso með.
Barca vantar pening til að skrá Jules Koundé til leiks í spænsku deildinni og hefur félagið verið á höttunum eftir Alonso í sumar án þess þó að ná samkomulagi við Chelsea um kaupverð.
Aubameyang er 33 ára gamall og gekk í raðir Barca á frjálsri sölu frá Arsenal síðasta janúar. Hann skoraði ellefu í sautján deildarleikjum á Spáni en er kominn í aukahlutverk eftir komu Robert Lewandowski. Hjá Chelsea myndi hann vera í aðalhlutverki í fremstu víglínu.
Óljóst er hvort Barcelona samþykki þetta tilboð en ljóst er að það vantar ekki mikið til að samkomulag náist.