Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 19. nóvember 2022 16:09
Brynjar Ingi Erluson
Eystrasaltsbikarinn: Ísland meistari eftir sigur í vítakeppni
Patrik varði áttundu spyrnu Letta
Patrik varði áttundu spyrnu Letta
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann skoraði úr vítaspyrnu í leiknum en hann og Daníel skoruðu einnig í vítakeppninni
Ísak Bergmann skoraði úr vítaspyrnu í leiknum en hann og Daníel skoruðu einnig í vítakeppninni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lettland 1 - 1 Ísland (7-8, eftir vítakeppni)
0-1 Ísak Bergmann Jóhannesson ('62 , víti)
1-1 Andrejs Ciganiks ('67 )
Rautt spjald: Raimonds Krollis, Lettland ('27) Lestu um leikinn

Ísland er meistari í Eystrasaltsbikarnum eftir að hafa unnið Lettland, 8-7, eftir vítakeppni. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Bæði lið skoruðu úr sjö vítum áður en Daníel Leó Grétarsson steig á punktinn og skoraði og svo sá Patrik við áttundu spyrnu Letta og skilaði bikarnum heim.

Íslenska liðið sótti af krafti í upphafi leiksins en Ísak Bergmann Jóhannesson átti gott skot úr teignum sem Pavels Steinbors varði vel áður en Sveinn Aron Guðjohnsen átti skalla í stöng eftir fyrirgjöf Arnórs Sigurðssonar stuttu síðar.

Á 27. mínútu misstu Lettar mann af velli er Raimonds Krollis keyrði aftan í Daníel Leó Grétarsson. Krollis steig aftan á Daníel og virtist það algert óviljaverk en dómarinn var ekki á sama máli og rak Krollis af velli.

Undir lok fyrri hálfleiks kom Mikael Neville Anderson sér í kjörið tækifæri til að koma Íslandi yfir en Steinbors gerði sig breiðan og varði skotið.

Íslenska liðið hélt áfram að sækja í þeim síðari og dró til tíðinda eftir klukkutímaleik er Arnór Sigurðsson skallaði sendingu Mikael Neville í höndina á varnarmanni Letta og vítaspyrna dæmd. Ísak fór á punktinn. Spyrnan var ekkert sérlega góð en þó föst og varði Steinbors boltann í netið.

Fimm mínútum síðar jöfnuðu Lettar. Patrik Sigurður Gunnarsson átti sendingu á Aron Elís Þrándarson sem ætlaði að framlengja hann áfram á Stefán Teit Þórðarson, en sendingin var slök og komust Lettar í boltann, sóttu hratt áður en Andrejs Ciganiks kom boltanum yfir Patrik í markinu.

Sveinn Aron var í vandræðum með tréverkið í leiknum. Hann átti annan skalla á 76. mínútu en í þetta sinn fór hann í slá og yfir markið.

Þórir Jóhann Helgason, sem hafði komið inná sem varamaður, gat tryggt bikarinn í uppbótartíma en skot hans hafnaði í utanverða stönginni. Lokatölur 1-1 og beint í vítaspyrnukeppni.

Vítaskytturnar voru nokkuð öruggar í vítakeppninni en það var ekki fyrr en Lettar tóku áttundu spyrnu sína er Patrik Sigurður sá við Antonijs Cernomordiji og tryggði íslenska liðinu sigur í Eystrasaltsbikarnum í fyrsta sinn!

Vítakeppnin:
0-1 Ísak Bergmann Jóhannesson
1-1 Janis Ikaunieks
1-2 Sveinn Aron Guðjohnsen
2-2 Arturs Zjuzins
2-3 Þórir Jóhann Helgason
3-3 Davis Ikaunieks
3-4 Arnór Sigurðsson
4-4 Alvis Jaunzems
4-5 Stefán Teitur Þórðarson
5-5 Elvis Stuglis
5-6 Aron Elís Þrándarson
6-6 Vladislavs Sorokins
6-7 Mikael Egill Ellertsson
7-7 Andrejs Ciganiks
7-8 Daníel Leó Grétarsson
7-8 Misnotað víti Antonijs Cernomordijs
Athugasemdir
banner
banner
banner