West Ham í viðræðum um Kante - Tottenham hefur áhuga á miðjumanni Man Utd - Fulham vill Andre
   fim 20. júní 2024 17:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
EM: Draumamark Hjulmand gegn slökum Englendingum
Frábært mark Hjulmand gegn Englendingum.
Frábært mark Hjulmand gegn Englendingum.
Mynd: EPA
Schmeichel fær líklega martraðir þegar hann sér Kane fá boltann í teignum.
Schmeichel fær líklega martraðir þegar hann sér Kane fá boltann í teignum.
Mynd: EPA
Southgate og Englendingar eru með fjögur stig þrátt fyrir ekki merkilega spilamennsku.
Southgate og Englendingar eru með fjögur stig þrátt fyrir ekki merkilega spilamennsku.
Mynd: EPA
Danmörk 1 - 1 England
0-1 Harry Kane ('18 )
1-1 Morten Hjulmand ('34 )

Danmörk og England gerðu jafntefli í C-riðli Evrópumótsins í dag. England kom inn í leikinn eftir sigur á Serbíu í fyrstu umferð en Danir misstu sinn leik gegn Slóvenum niður í jafntefli.

Úrslitin úr hinum leik riðilsins:

Harry Kane kom Englandi yfir eftir flottan undirbúning frá Kyle Walker á 18. mínútu leiksins. Victor Kristiansen gáði ekki að sér í varnarleiknum og missti af Walker á hægri kantinum og Walker fékk nægan tíma til að athafna sig. Boltinn endaði hjá Kane sem kláraði af stuttu færi. Englendingar óttuðust snemma leiks að Walker væri meiddur en hann harkaði af sér.

Kane elskar að skora gegn Kasper Schmeichel. Í ensku úrvalsdeildinni var enginn markvörður sem fékk jafnmikið að finna fyrir Kane og Schmeichel. Þegar Schmeichel var í úrvalsdeildinni skoraði Kane heil 14 mörk gegn honum, markið í dag var 15. markið hjá Kane gegn danska markverðinum.

Danir svöruðu þessu marki Englendinga heldur betur vel og stundarfjórðungi síðar skoraði Morten Hjulmand frábært mark. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með þrumuskoti fyrir utan teig, óverjandi fyrir Jordan Pickford í marki Englendinga.

Nokkuð jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks, erfitt var fyrir leikmenn að fóta sig á lausum vellinum í Frankfurt, völlurinn var mjög laus í sér. Danir fengu gott tækifæri þegar um sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en náðu ekki að nýta stöðuna nægilega vel. Englendingar eru áfram ósannfærandi og eins og þeir séu fastir í öðrum gír, hljóta að geta sýnt betri frammistöðu en þeir hafa gert í undanförnum þremur leikjum.

Fleiri urðu mörkin ekki og jafntefli nokkuð sanngjörn niðurstaða.

Eftir þessi úrslit eru Englendingar á toppi riðilsins með fjögur stig, Danir og Slóvenar eru með tvö stig og Serbar eru á botni riðilsins með eitt stig.

England mætir Slóvenum í lokaumferðinni og Danmörk mætir Serbíu. Lokaleikur dagsins á EM er viðureign Spánar og Ítalíu í B-riðli. Sá leikur hefst klukkan 19:00.


Athugasemdir
banner
banner