Mbappe fær frest frá Real Madrid - Richarlison á óskalista Sádi-Arabíu - Madueke vill yfirgefa Chelsea
   mið 20. september 2023 21:12
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KR frestaði fagnaðarlátum Víkinga
watermark Kristinn Jónsson gaf mark í fyrri hálfleiknum en lét það ekki á sig fá og kom tvíefldur inn í síðari hálfleikinn, með marki og stoðsendingu
Kristinn Jónsson gaf mark í fyrri hálfleiknum en lét það ekki á sig fá og kom tvíefldur inn í síðari hálfleikinn, með marki og stoðsendingu
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
watermark Danijel Dejan Djuric skoraði annað mark Víkinga í leiknum
Danijel Dejan Djuric skoraði annað mark Víkinga í leiknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 2 - 2 KR
1-0 Aron Elís Þrándarson ('9 )
2-0 Danijel Dejan Djuric ('31 )
2-1 Benoný Breki Andrésson ('53 )
2-2 Kristinn Jónsson ('73 )
Lestu um leikinn

Víkingur og KR gerðu 2-2 jafntefli í hádramatískum leik í efri hluta Bestu deildar karla í Víkinni í kvöld. KR-ingar fresta þar með fögnuði Víkinga, en heimamenn hefðu með sigri getað unnið Bestu deildina.

Heimamaðurinn, Aron Elís Þrándarson, kom Víkingum yfir á 9. mínútu við mikinn fögnuð stuðningsmanna. Einhver misskilningur var í vörn KR, sem varð til þess að Víkingar fengu hornspyrnu sem Aron Elís skoraði úr, en hann var einn og óvaldaður í teignum er hornspyrna Pablo Punyed sveif til hans og í netið.

Danijel Dejan Djuric tvöfaldaði forystu Víkinga á 31. mínútu og það eftir skelfileg mistök hjá KR-ingum. Kristinn Jónsson sendi boltann til baka og á Danijel, sem lagði boltann í autt netið. Simen Kjellevold bjóst engan veginn við þessari sendingu til baka og lítið við hann að sakast.

Víkingar voru nálægt því að bæta við þriðja markinu í upphafi síðari hálfleiks. KR-ingar misstu boltann og komust Víkingar í yfirtölu. Boltinn barst til Danijel, sem teygði sig í hann og kom boltanum fyrir Birni Snæ Ingason, en skot hans laust.

Sex mínútum síðar stimpluðu KR-ingar sig inn í leikinn. Benóný Breki Andrésson og Kristinn Jónsson gerðu vel. Kristinn skýldi boltanum áður en hann kom honum á Benóný sem setti boltann undir Ingvar Jónsson í markinu.

Danijel fékk algert dauðafæri til að gera út um leikinn á 62. mínútu. Birnir Snær átti fullkomna sendingu þvert fyrir markið á Danijel, sem setti boltann vinstra megin við SImen, en skotið framhjá markinu. Hefði átt að gera betur í þessari stöðu.

Theodór Elmar Bjarnason átti frábært skot að marki á 69. mínútu en Ingvar varði glæsilega. Á 72. mínútu jöfnuðu KR-ingar og var það Kristinn Jónsson, sem bætti heldur betur upp fyrir mistök sín í öðru marki Víkinga.

KR-ingar keyrðu hratt upp í skyndisókn eftir hornspyrnu Víkinga og var það Stefán Árni Geirsson sem keyrði vinstra megin inn í teiginn, átti skot sem Ingvar varði upp í loftið og var Kristinn mættur við marklínuna til að skalla boltann í netið. Mögnuð endurkoma Kristins.

Undir lok leiksins fékk Birnir Sær Ingason tækifæri til að tryggja Víkingum titilinn er hann slapp í gegn vinstra megin en Simen varði skot hans naumlega aftur fyrir endamörk.

Lokatölur 2-2 í Víkinni. Fagnaðarlátum Víkinga frestað en liðið er á toppnum með 60 stig, tólf stigum meira en Valur þegar fjórir leikir eru eftir á meðan KR er í 6. sæti með 33 stig. Víkingur þarf aðeins eitt stig til að tryggja titilinn og getur liðið gert það gegn Breiðabliki á mánudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner