Breiðablik hefur átt í erfiðu gengi undanfarna mánuði. Liðið hefur einungis unnið einn deildarleik frá 19. júlí og allt lítur út fyrir að Blikar missi af Evrópusæti í ár. Ýmsar sögusagnir hafa gengið um framtíð Halldórs Árnasonar, þjálfara liðsins, og talið er að nokkur ólga sé á bak við tjöldin í Kópavogi.
Fótbolti.net sló á þráðinn til Flosa Eiríkssonar, formanns Breiðabliks, í morgunsárið og ræddi við hann um framtíð þjálfarans.
„Allir Blikar eru ósáttir við gengið síðustu mánuða, þjálfari, stjórn og aðrir.“
En Dóri er með fullt traust frá stjórninni?
„Dóri er þjálfari liðsins.“
Með fullt traust?
„Hann sjálfur leiðir þangað til annað kemur í ljós.“
Breiðablik framlengdu samning Halldórs til þriggja ára fyrr í sumar.
„Við gerðum það og töldum að það væri skynsamlegt.“
Þið standið við þá skoðun enn í dag?
„Já.“
Evrópusætið er ekki lengur í höndum Breiðabliks en Stjarnan getur tryggt sér sætið í leik sínum við Fram í kvöld.
„Það er ekki gott fyrir okkur. Við höfum gaman að því að spila í Evrópu og höfum gert það í mörg ár. Auðvitað skiptir þetta fjárhagslega miklu máli en það er nú aðallega að við höfum gaman af því og fundist það þroska okkur, gera okkur að betri leikmönnum og svo framvegis. En við vitum að hver króna í þessum rekstri skiptir máli,“ sagði Flosi að lokum.