Daníel Tristan Guðjohnsen og hans menn í Malmö höfðu betur gegn Norrköping, 2-0, í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Landsliðsmaðurinn byrjaði á bekknum hjá Malmö á meðan Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru í byrjunarliði Norrköping.
Daníel kom inn á hjá Malmö þegar lítið var eftir af leiknum og þá kom Jónatan Guðni Arnarsson inn á hjá Norrköping. Arnór Sigurðsson var fjarri góðu gamni gegn sínum gömlu félögum, en hann er að glíma við meiðsli.
Malmö er í 3. sæti sænsku deildarinnar með 45 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.
Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á í síðari hálfleik hjá Sarpsborg sem tapaði fyrir Bodö/Glimt, 5-2, í norsku úrvalsdeildinni. Sarpsborg er í 10. sæti með 32 stig.
Guðlaugur Victor Pálsson var í hjarta varnarinnar hjá Horsens sem vann öruggan 3-0 sigur á Middelfart í dönsku B-deildinni. Góð vika hjá Guðlaugi sem var frábær í 2-2 jafntefli Íslands gegn Frakklandi á dögunum.
Horsens er í 3. sæti með 22 stig, tveimur stigum frá toppnum eftir þrettán umferðir.
Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn af bekknum hjá Gwangju sem tapaði fyrir Ulsan, 2-0, í úrvalsdeildinni í Suður-Kóreu.
Þessi lið mætast einmitt í úrslitum bikarsins í desember en þau eru hlið við hlið á töflunni í deildinni. Gwangju er með 42 stig í 8. sæti en Ulsan sæti neðar með 40 stig.
Kristófer Jónsson spilaði allan leikinn í 1-1 jafntefli Triestina gegn Pergolettese í A-riðli ítölsku C-deildarinnar. Markús Páll Ellertsson var ónotaður varamaður á bekknum hjá Triestina.
Triestina er áfram á botninum með -7 stig.
Athugasemdir