Katla Tryggvadóttir opnaði markareikninginn með ítalska liðinu Fiorentina með því að skora sigurmarkið í ótrúlegum 4-3 sigri á Milan í dag.
Katla kom til Fiorentina frá Kristianstad í sumar og var að spila þriðja leik sinn með liðinu.
Hún kom inn af bekknum þegar hálftími var eftir í stöðunni 2-2, en Milan komst yfir tæpum fimmtán mínútum síðar.
Í uppbótartíma skoraði hin sænska Madelen Janogy jöfnunarmarkið og á lokasekúndunum gerði Katla sigurmarkið og fullkomnaði svakalega endurkomu.
Fiorentina er í 5. sæti með 4 stig eftir þrjá leiki.
Daníela Dögg Guðnadóttir kom inn af bekknum hjá Álasundi sem vann 5-0 sigur á Viking í norsku B-deildinni. Álasund er norskur meistari 2025 og spilar í efstu deild á næsta tímabili. Frábært afrek hjá Daníelu og stöllum hennar.
Marie Jóhannsdóttir byrjaði hjá Molde sem tapaði fyrir Arna Björnar, 3-2. Molde var þegar búið að tryggja sæti sitt í úrvalsdeildina og skiptu úrslitin því litlu í þessum leik.
Davíð Snær á skotskónum í stórsigri
Davíð Snær Jóhannsson skoraði fjórða mark Álasunds í 6-0 stórsigri á Mjöndalen í norsku B-deildinni. Hann kom inn af bekknum á 68. mínútu og skoraði tíu mínútum síðar. Ólafur Guðmundsson var ekki með.
Álasund er í 4. sæti með 44 stig eftir 26 umferðir.
Kristian Nökkvi Hlynsson byrjaði hjá Twente sem gerði 3-3 jafntefli við NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni. Twente er í 7. sæti með 14 stig eftir níu umferðir.
Athugasemdir