Nottingham Forest hefur sett sig í samband við ítalska þjálfarann Roberto Mancini en það er David Ornstein hjá Athletic sem greinir frá þessu í dag.
Ange Postecoglou var rekinn frá Forest aðeins nokkrum mínútum eftir 3-0 tapið gegn Chelsea í dag.
Honum tókst ekki að sækja sigur í þeim átta leikjum sem hann stýrði Forest og var það vitað mál að ef liðið myndi tapa gegn Chelsea þá yrði samstarfinu slitið.
Athletic segir frá því að Forest sé búið að setja sig í samband við Roberto Mancini, fyrrum stjóra Manchester City og ítalska landsliðsins.
Hann hætti með landslið Sádi-Arabíu á síðasta ári og er því laus allra mála auk þess sem hann er með mikla og góða reynslu úr ensku úrvalsdeildinni.
Mancini gerði Man City að deildar- og bikarmeisturum, og átti stóran þátt í uppgangi liðsins eftir eigendaskiptin. Hann stýrði liðinu frá 2009 til 2013.
Sean Dyche, fyrrum stjóri Burnley og Everton, hefur einnig verið orðaður við starfið ásamt Steve Cooper.
Athugasemdir