Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 21. nóvember 2020 16:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar um A-landsliðið: Ef einn segir nei, þá er hann lygari
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfarar U21 landsliðsins.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfarar U21 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Arnar Þór.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Arnar Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 landsliðsins og yfirmaður knattspyrnusviðs KSÍ, var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolta.net á þessum laugardegi.

Það var staðfest í gær að U21 landsliðið verður á meðal þáttökuþjóða á EM á næsta ári. Þetta er í annað sinn sem U21 landsliðið kemst í lokakeppni Evrópumótsins en í hitt skiptið var það árið 2011 - fyrir tíu árum síðan.

„Þetta er búið að vera ferðalg sem við byrjuðum á fyrir einu og hálfu ári. Það er búið að vera rosalega góður stígandi í spilamennsku strákanna og okkur hefur fundist liðið vera spila betur og betur," segir Arnar.

„Við settum okkur markmið áður en við byrjuðum: við ætlum að komast á lokamótið. Þetta var þannig riðill að það var allt mögulegt. Að mínu mati var þetta þriðji erfiðasti riðillinn af þessum níu sem voru í boði. Við vorum mjög óheppnir með lið úr fjórða styrkleikaflokki sem var Írland. Ef maður kíkir yfir hina riðlana, þá var þetta mjög erfiður riðill."

„Við endum uppi sem þriðja besta liðið í öðru sæti sem er er frábært. Þessir drengir eiga ótrúlegt hrós skilið og þetta er frábært fyrir þá. Við vitum hvað það getur gert fyrir íslenskan fótbolta að komast á svona lokamót, við sáum hvað það gerði fyrir tíu árum og við sjáum hvað það er að gera fyrir strákana sem fóru á U17 lokamótið í fyrra. Við erum stoltir."

Arnar er einn af þeim sem hefur verið orðaður við A-landsliðsþjálfarastarfið. Hann var spurður að því hvort hann hefði áhuga á starfinu.

„Akkúrat í dag er ég byrjaður að undirbúa lokamót U21. Svo einfalt er það. En ef þið mynduð spyrja alla þjálfara á Íslandi hvort þeir hefðu áhuga á að vera A-landsliðsþjálfari, og ef það er einn sem segir nei við ykkur, þá er hann lygari. Það er alveg ljóst að það að vera A-landsliðsþjálfari Íslands og að vera Íslendingur, það er ekkert stærra starf til á Íslandi."

„Ég er U21 landsliðsþjálfari og yfirmaður knattspyrnusviðs, og það var tekin ákvörðun um það fyrir tveimur árum þegar ég byrjaði í þessu að allt sem snýr að U21 og niður, þar átti ég að leggja línurnar. Það hefur ekkert breyst. A-landsliðsþjálfarastaðan karla- og kvennamegin, það er ekki mitt að ákveða hver það á að vera. Ef Guðni (Bergsson) og stjórnin telja að ég sé besti aðilinn í það, þá hef ég að sjálfsögðu áhuga á því."

Er hægt að vera yfirmaður knattspyrnusviðs og A-landsliðsþjálfari? Arnar segir svo vera.

„Já, það held ég. Ég held það ekki, ég veit það. Roberto Martinez gerir það hjá Belgíu. Þeir ætluðu að ráða inn yfirmann knattspyrnusviðs en hættu svo við því þeir voru svo ánægðir með þetta 'duo' starf ef við getum kallað það. Ef það er hægt annars staðar, þá ætti það að vera hægt á Íslandi líka."

„Það er alveg rétt, það er mikill munur á því hvernig knattspyrnusamböndin í Belgíu og á Íslandi eru rekin. Starfslýsingin er mjög ólík, en það er alveg ljóst fyrir mér að það er hægt. Ef að þessi staða kemur upp, þá er ég 100 prósent öruggur að þetta sé hægt. Það starf sem ég er búin að vera að gera í sameiningu við alla inn á KSÍ á knattspyrnusviðinu undanfarið eitt og hálft ár, það er ekki búið, við erum rétt að byrja."
Útvarpsþátturinn - Arnar Viðars, Sindri Kristinn og enski
Athugasemdir
banner
banner