banner
   fim 22. apríl 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Rökrétt að koma hingað, æfa tvisvar á dag og fá leiki undir belti"
Lengjudeildin
Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann var ráðinn þjálfari Ólsara síðasta vetur.
Hann var ráðinn þjálfari Ólsara síðasta vetur.
Mynd: Víkingur Ó.
Víkingur Ó. hafnaði í níunda sæti Lengjudeildarinnar í fyrra.
Víkingur Ó. hafnaði í níunda sæti Lengjudeildarinnar í fyrra.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Brynjar Kristmundsson er aðstoðarþjálfari Víkinga.
Brynjar Kristmundsson er aðstoðarþjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ejub Purisevic þjálfaði lengi á Ólafsvík.
Ejub Purisevic þjálfaði lengi á Ólafsvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Ólsara við Gróttu í æfingaleik á dögunum.
Úr leik Ólsara við Gróttu í æfingaleik á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Konráð Ragnarsson.
Konráð Ragnarsson.
Mynd: Haukur Gunnarsson
'Maður er í þessu af því að þetta er ástin í lífi manns, maður hefur rosalega ástríðu og kærleika fyrir íþróttinni. Sömuleiðis fyrir því að sjá leikmenn og liðið sitt vaxa og dafna.'
'Maður er í þessu af því að þetta er ástin í lífi manns, maður hefur rosalega ástríðu og kærleika fyrir íþróttinni. Sömuleiðis fyrir því að sjá leikmenn og liðið sitt vaxa og dafna.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eina sem við getum gert er að hafa stjórn á því sem við erum góðir í og láta verkin tala. Annað er ekki hægt," segir Gunnar Einarsson, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, í samtali við Fótbolta.net. Ólsurum er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 12. sæti
Lykilmaðurinn: Einn af betri leikmönnum deildarinnar

„Mér finnst það allt í góðu og við berum virðingu fyrir henni," segir Gunnar þegar honum var sagt frá því að þjálfarar og fyrirliðar deildarinnar spá því að Ólsarar endi neðstir. „Þessi spá byggir á hlutum sem eru ekki 'relevant' finnst mér þegar komið er inn í mótið. Ef þessi spá byggir eingöngu á árangri síðasta sumars þá er það er allt í góðu, það var síðasta sumar. Ef þessi spá byggir á því sem mönnum fannst um veturinn þá er það líka allt í góðu. Það er ekki liðið sem er að fara inn í mótið."

Okkar skylda að standa vörð um þetta
Gunnari hefur tekist að fá unga íslenska stráka á Ólafsvík og hann segir það mikilvægt að þessir leikmenn fái tækifæri í Lengjudeildinni.

„Það er búið að setja mikið púður í nokkur félög. Mín skoðun er sú að við erum að eyða fjármunum í að fá útlendinga á kostnað íslenskra stráka sem eiga skilið þessi tækifæri. Ef menn halda að þessir strákar séu ekki tilbúnir þá eru þeir á villigötum. Það er bara mitt álit. Það er okkar skylda sem þjálfara á Íslandi að standa vörð um þetta. Ef aðrir segja að ég sé að tala með rassgatinu þá er það bara þannig. Við eigum það mikið af ungum, efnilegum strákum sem eru í þessu millibilsástandi; að vera ekki tilbúnir fyrir Pepsi Max-deildina og fá ekki nægja örvun í 2. flokk, að næsta rökrétta skrefið sé að spila í Lengjudeildinni eða 2. deild."

„Ef þjálfarar í Lengjudeildinni halda að ákveðinn leikmaður sé ekki tilbúinn í Pepsi Max-deildina og það þýði að hann sé ekki tilbúinn í Lengjudeildina, þá er það rangt. Það er töluverður munur á Lengjudeild og Pepsi Max-deild."

Í Ólafsvík fá leikmenn að komast út á land í gott umhverfi að sögn Gunnars.

„Það hefur gengið fínt að fá leikmenn. Auðvitað verður ár eitt erfiðara. Ég er nýr í þjálfun þannig séð þó ég sé búinn að vera lengi í þessu og fjárfest miklum tíma. Maður býr til eftirspurn með því að búa til eitthvað sem aðrir geta sett puttann á: 'Þarna fór þessi leikmaður í þetta umhverfi, hann æfði tvisvar á dag og var með aðhald, eftirfylgni og uppbyggilega gagnrýni'. Þegar leikmenn sjá eitthvað sem er áþreifanlegt, að þessi gerði það og er fyrirmynd að því. Ef þetta gengur upp og gengur vel þá verður auðveldara að fá leikmenn á ári tvö. Maður ber virðingu fyrir því sem leikmenn vilja á endanum."

„Þeir sem vilja ná lengra þá er rökrétt að koma hingað, æfa tvisvar á dag og fá leiki undir belti," segir Gunnar en Ólsarar hafa verið að æfa vel upp á síðkastið.

Nýtt lið
Gunnar hefur búið til nánast nýtt lið frá síðustu leiktíð og það er komin mynd á það núna.

„Ég hef fastmótaða hugmyndafræði fyrir hvað ég stend fyrir. Ég kem hingað í desember en það hafa bara verið tveir leikir - síðasti leikur fyrir Covid-pásu og æfingaleikur gegn Gróttu - þar sem við höfum verið með liðið okkar. Liðið okkar sem nálgast þessa tvo leiki endurspeglar ekki það sem á undan var; í Fótbolta.net mótinu og Lengjubikarnum. Við vorum með lánsmenn í Fótbolta.net mótinu til að geta tekið þátt og í Lengjubikarnum vorum við með rétt yfir helmingi af kjarnanum sem við erum með í dag."

„Það er bara þannig í nútímafótbolta að samvera og tenging milli leikmanna, að vita hvatir og þarfir hins leikmannsins skiptir ofboðslega miklu máli. Við höfum náð að gera ótrúlega flotta hluti sem hópur í síðustu tveimur leikjum. Það er engin tilviljun hvaða leikmenn við erum að fá hingað. Þetta er allt í takt við ákveðna karaktera, leikmenn sem vilja gefa ákveðið frá sér upp á bætingu að gera - sem fitta inn í þetta umhverfi að koma svona stutt fyrir mót. Það hefur endurspeglast í síðustu tveimur leikjum okkar, það vita þeir tveir þjálfarar sem mættu okkur í þeim leikjum. Þetta er bara spennandi."

Hvernig karakterum er hann að leita að? „Ég er að leita að strákum sem vilja setja ákveðið 'statement'; þeir vilja bæta sig, þetta eru ýmist leikmenn sem hafa verið í brottfalli hjá Pepsi Max-liðum eða leikmenn sem hafa verið sendir út í lán til að stíga næsta skrefi. Við erum bara á Íslandi og það eru ekki alltaf 11 bestu fótboltamennirnir sem skapa bestu liðsheildina. Mér finnst það mjög áhugavert í þjálfarafræðinni hvernig maður 'recruitar'. Ég held að karakterinn beri meira vægi í Lengjudeildinni. Það er mín skoðun."

„Við erum nánast með nýtt lið, átta af 11 leikmönnum sem byrjuðu í fyrra eru farnir. Ellefu af 18 leikmönnum sem spiluðu mest í fyrra eru farnir. Eðlilega endurspeglast það í mati fjölmiðla, þjálfara og annarra hvar þau telja okkur enda í deildinni. Ég ber virðingu fyrir því. Það eina sem við getum gert er að láta verkin tala."

Starf til langtíma?
Víkingur Ólafsvík var með tvo aðalþjálfara á síðustu leiktíð en þar áður stýrði Ejub Purisevic Ólsurum í um 15 ár. Gunnar er á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari í meistaraflokki og hann er spenntur fyrir því að þjálfa á Ólafsvík.

„Ég hefði klárlega getað farið fyrr út í þjálfun en ég vildi bara fara út í þjálfun þegar ég er tilbúinn í það. Minn einhuga metnaður liggur ekki í því að þjálfa bestu liðin á Íslandi. Ég hef gefið mér góðan tíma í að vita og læra, og vera móttækilegur fyrir því að gera mistök. Ég sýni umburðarlyndi gagnvart sjálfum mér og legg það inn í liðið mitt að það sýni mér líka umburðarlyndi. Ég vil skrifa mína sögu."

„Mér hefur alltaf fundist Ólafsvík heillandi staður. Ég vil komast úr bænum, vera í nálægð við leikmennina - leikmenn sem hafa metnað í að æfa tvisvar á dag og ég til staðar fyrir þá. Við komum seinna saman og eigum minni tíma saman yfir veturinn en við getum aukið það verulega yfir sumarið þó að þetta séu 24 leikir á 19 vikum. Ég veit að við munum tengja vel og hratt. Af hverju valdi ég þetta? Ég vel næsta skref, ég vel fólkið í kringum mig og umhverfið sem dregur fram það besta fram í mér."

„Í Ólafsvík er lítið samfélag en hér eru öflugir sjálfboðaliðar sem vaða yfir eld og brennistein bara til að sjá félagið vaxa og dafna. Félagið hefur skilað af sér frambærilegum leikmönnum. Þetta er samstillt samfélag og hér myndast stemning. Það voru flottir leikmenn hérna í fyrra en þegar ég horfði á Víkinga fannst mér þetta vera 11 menn að róa í sitthvora áttina. Þrátt fyrir það eru þetta góðir leikmenn. Samhugur og samvinna er mikilvægur þáttur í þeirri stefnumótun sem er lögð fyrir, ekki að fá frábæra 11 leikmenn sem eru ekki samstíga í því sem er að gera."

Þegar hann er spurður hvort hann sjái fyrir sér að þetta verði langtíma verkefni segir hann:

„Þess vegna, af hverju ekki? Ég er með þessa hugsjón og sel hugmyndafræði mína inn í hópinn minn. Ég aðgreini mig ekki frá liðinu mínu; það eru við sem erum að gera þetta, ekki bara ég. Maður gerir alltaf það sem manni líður vel með og ef manni líður vel með eitthvað og hlutirnir ganga upp þá er þjálfun þannig að þá fer maður eitthvað annað, á næsta stökkpall. Ég er ekkert að eltast við það, alls ekki. Ég vil sjá leikmenn sem eru góðir verða betri, ég vil sjá lið sem er að koma saman, hversu fljótt maður getur þróað það og gert það að samkeppnishæfu liði í þessari deild. Ef þetta er langtímaverkefni þá er þetta langtímaverkefni."

Ánægður með hópinn en þarf tvo markverði
Gunnar kveðst ánægður með hópinn sem hann er búinn að safna saman en hann þarf að bæta markvörð við hópinn.

„Mín hugmyndafræði liggur í því: 'Fyrir hvað stöndum við, hvernig fótbolta viljum við spila, hvað einkennir okkur, hreyfing án bolta, hvar ætlarðu að standa, tímasetningar.' Það mun bara sjást hvernig við spilum. Við erum með marga X-faktora í liðinu, við erum með marga leikmenn sem gefa fjölbreytileika í sóknarleiknum og það gefur möguleika á að opna svæði og búa til svæði. Það eru fullt af möguleikum í liðinu en við höfum verið að drilla þá meiningu sem við stöndum fyrir. Ég sá ofboðslega mikið af þessum þáttum í síðustu tveimur leikjum okkar. Þótt leikurinn gegn Gróttu hafi tapast, þá gefa úrslitin enga mynd á það hvernig leikurinn spilaðist. Við erum á réttri leið."

„Ég er bara mjög sáttur með hópinn. Við erum alltaf opnir fyrir öllu, en þá fyrst og fremst fyrir leikmönnum sem eru hér á landi og sjá tækifæri í því að koma hér og spila. Við erum þá aðallega að horfa á stráka sem sjá ekki fram á mörg tækifæri í því félagi sem þeir eru í, og sjá möguleika í því að koma hingað. Við erum ekki að horfa út fyrir landsteinanna."

Varðandi markvarðarstöðuna segir hann: „Við erum með öflugan strák sem heitir Konni (Konráð Ragnarsson) og er heimamaður. Hann hefur staðið sig vel í síðustu leikjum eftir að hafa verið meiddur í vetur. Hann hefur margt til brunns að bera; er viljugur, sterkur, hefur flotta hæð og er mikill liðsmaður. Hann á bara eftir að verða betri."

„Við erum að leita að markverði, okkur vantar markvörð því þú þarft að hafa tvö markverði. Við höfum æft mikið í bænum síðasta mánuðinn. Það var bara fenginn lánaður markvörður. Þetta er sérstaða sem við búum við að hafa liðið á tveimur, þremur stöðum. Ætlum við að gera það að vandamáli? Nei. Ætlum að takast á við vandamálið, já."

Dino Hodzic var orðaður við Ólsara en hann fór í ÍA. Gunnar vann með Dino hjá Kára á síðustu leiktíð.

„Hann er frábær markvörður og frábær karakter. Hann fór í ÍA, en það gekk ekki upp hjá okkur. Það er aldrei að vita nema okkar leiðir liggi saman aftur í framtíðinni. Hann hefur alla burði utan vallar sem innan vallar að vera leikmaður í Pepsi Max-deildinni. Ég er innilega að vona að hann finni sinn farveg þar."

Alltaf dæmdur á úrslitum
Þá er það stóra spurningin; hvað er markmiðið fyrir sumarið?

„Ég er alltaf dæmdur af úrslitunum á enda dags. Ég get sagt þetta og hitt, en maður er alltaf dæmdur af úrslitum. Maður er í þessu af því að þetta er ástin í lífi manns, maður hefur rosalega ástríðu og kærleika fyrir íþróttinni. Sömuleiðis fyrir því að sjá leikmenn og liðið sitt vaxa og dafna. Það sem við stöndum fyrir og ætlum að gera, það er langt því frá að vera einhvers staðar í tengingu við þá spá sem liggur fyrir en gott og vel. Við berum virðingu fyrir spánni, öðrum liðum, leikmönnum og þjálfurum. Það verður bara að koma í ljós hvað gerist."

„Dagurinn í gær er farinn, morgundagurinn er ekki kominn og hvað ætlarðu að gera við daginn í dag," sagði Gunnar Einarsson, þjálfari Víkings Ólafsvíkur sem er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar þetta sumarið. Ólsarar ætla að láta verkin tala inn á vellinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner