Portúgalski bakvörðurinn Diogo Dalot segir tímabilið hafi verið skelfilegt í alla staði og tapið gegn Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gær hafi kórónað það.
United fór titlalaust í gegnum tímabilið og er útlit fyrir að það hafni í 16. sæti deildarinnar sem verður versti árangur í sögu félagsins.
Tapið þýðir einnig að United verður ekki í Evrópukeppni á næsta tímabili, en Dalot segir að félagið og stuðningsmenn eigi miklu meira skilið en það sem átti sér stað á þessari leiktíð.
„Þetta tímabil er var augljóslega skelfilegt í alla staði. Við verðum að fara í sjálfsskoðun og sjá hvernig við getum bætt okkur, en það síðasta sem við þurfum núna er að reyna skapa einhvern aðskilnað milli okkar og stuðningsmanna.“
„Við verðum að sanna fyrir þeim að við eigum skilið að vera hér og þeir eiga meira skilið. Þeir verða bara að styðja við bakið á okkur og hafa trú. Ég held að þeir muni gera það.“
„Það er margt sem þarf að breytast, hvort sem það sé hversdagsleg hegðun eða annað þá þarf staðallinn bara að vera hærri.“
„Við munum fara í sjálfsskoðun í fríinu til að greina allt og ég er viss um að félagið muni gera það sama og gera þær breytingar sem það telur sig þurfa að gera.“
„Sem leikmenn þurfum við að skoða hvað við getum gert betur á hverjum einasta degi. Væntingarnar eru alltaf miklar, en félagið á miklu meira skilið en það sem gerðist á þessu tímabili. Við tökum ábyrgð því við erum þeir sem spila leikina,“ sagði Dalot.
Athugasemdir