Skagamenn hafa átt erfitt uppdráttar í byrjun sumars en þeir töpuðu gegn FH á heimavelli í gær og eru núna í fallsæti.
„Það er bara ein leið út úr þessu og það er bara hörkuvinna," sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.
„Það er bara ein leið út úr þessu og það er bara hörkuvinna," sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.
Skagamönnum var spáð fínu gengi fyrir mót eftir að hafa leikið vel í fyrra, en það er fátt gott að frétta af ÍA þessa stundina eins og rætt var um í Innkastinu í gær.
„Ég talaði aðeins um það í útvarpsþættinum um daginn að ég sæi ekki ljós í enda ganganna hjá Skagamönnum. Sanngjarnt tap á heimavelli gegn FH er ekki að breyta þeirri skoðun minni," sagði Valur Gunnarsson í Innkastinu.
„Þeir unnu frábæran sigur á Frömurum í fyrsta leik en hefur verið ótrúlega slappt síðan þá," sagði Magnús Þórir Matthíasson.
„Jón Þór er búinn að viðurkenna að það þurfi að gera eitthvað. Auðvitað er hann með áhyggjur. Maður hlýtur að fara að spyrja sig hvernig staðan hans er því þetta er eiginlega ekki boðleg frammistaða. Þetta er helvítis bras á þeim og eitthvað sem ég allavega sá ekki fyrir," sagði Valur.
Leikmenn eins og Rúnar Már Sigurjónsson og Haukur Andri Haraldsson áttu að hjálpa ÍA að taka næsta skref, en það hefur ekki gengið.
„Það eru margir búnir að eiga erfitt uppdráttar. Rúnar Már mætir þarna inn á miðjuna, 35 ára gamall og með slakan skrokk. Hann er bara eldgamall bíll, búinn að vera í meiðslum. Það er búist við miklu af Hauki Andra en hann hefur ekki getað neitt," sagði Magnús Þórir og nefndi einnig að leikmenn eins og Johannes Vall og Jón Gísli Eyland, sem voru frábærir í fyrra, hefðu verið slakir núna.
„Ef að kantspilið þeirra er ekki að skila þeim neinu, þá veit maður ekki alveg á hverju þetta á að tikka hjá Akurnesingum," sagði Valur.
Þess má geta að næstu tveir leikir ÍA eru útileikir gegn Víkingi og Breiðabliki.
Hægt er að hlusta á Innkastið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan eða á öllum hlaðvarpsveitum.
Athugasemdir