Man Utd að styrkja sóknarleik sinn - Frimpong búinn í læknisskoðun hjá Liverpool - Villa hefur áhuga á Kelleher
   þri 20. maí 2025 20:48
Elvar Geir Magnússon
„Ég er ekki trúður“
Ange Postecoglou kallar eftir virðingu.
Ange Postecoglou kallar eftir virðingu.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, var beittur á fréttamannafundi fyrir úrslitaleikinn gegn Manchester United í Evrópudeildinni. Gríðarlega mikið er í húfi í leiknum, sem fram fer í Bilbao annað kvöld.

Dagblaðið London Standard sagði að Postecoglou væri á þunnri línu milli þess að vera talinn hetja eða trúður eftir því hvernig leikurinn myndi fara.

Tottenham getur bundið enda á sautján ára bið eftir titli eða staðið tómhent á sínu versta tímabili í efstu deild síðan liðið komst aftur upp í deild þeirra bestu árið 1978. Tottenham er í sautjánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Sama hvernig fer á morgun þá er ég ekki trúður og mun aldrei vera það. Það eru vonbrigði fyrir mig sem einstaklingur að fólk noti þetta orð yfir mig eftir að ég hef unnið mig upp í þá stöðu að leiða félag í úrslitaleik í Evrópu," segir Postecoglou.

„Að orða það þannig að ef ég skila ekki titli þá sé ég trúður, ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að svara því."

Postecoglou hefur síðustu mánuði í sífellu þurft að svara spurningum fjölmiðla um sína framtíð en talið er líklegt að hann verði látinn fara frá Tottenham, sama hvernig úrslitin verða á morgun. Hann virðist vera meðvitaður um örlög sín.

„Foreldrar mínir yfirgáfu heimaland sitt vegna barnanna sinna, vegna mín. Það er eitthvað sem ég mun alltaf geyma í hjarta mínu. Ég fæddist í Grikklandi. Faðir minn sá til þess að ég vissi hvað það þýðir að vera grískur. Svo ólst ég upp í Ástralíu, þar sem fótbolti er ekki vinsæl íþrótt. Ég fann það mjög sterkt í Ástralíu að þegar þú mætir einhverjum í íþróttum þá ferðu af öllum krafti í verkefnið, sama hversu öflugur mótherjinn er," segir Postecoglou.

Hann sagði á fréttamannafundinum að hann yrði í góðu lagi sama þó hann myndi missa starfið.

„Ekki hafa neinar áhyggjur. Ég hef áður verið í þeirri stöðu að stór leikur hefur verið minn síðasti. Ég komst á HM með Ástralíu og fór, ég vann með Celtic og fór, ég vann með Brisbane og fór. Svona er þessi bransi. Ég á frábæra fjölskyldu og gott líf. Svo lengi sem ég held heilsu og fjölskylda mín er til staðar þá er framtíð mín örugg."


Athugasemdir
banner