Sparkspekingurinn Rio Ferdinand segir að Patrick Dorgu eigi að taka alla ábyrgð á markinu sem Manchester United fékk á sig í 1-0 tapinu gegn Tottenham í úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.
Eina mark leiksins kom undir lok fyrri hálfleiks er Brennan Johnson hljóp á fyrirgjöf Pape Matar Sarr, setti boltann í Luke Shaw áður en hann náði rétt að pota boltanum neðst í vinstra hornið.
Ferdinand fór yfir markið í settinu hjá TNT Sports og kenndi þar Dorgu um.
Hann hafi átt að láta Shaw vita að Johnson væri að koma á ferðinni, en gerði það ekki.
„Dorgu talar ekki við Shaw á neinum tímapunkti í þessari stöðu. Þú þarft alltaf á þessari hjálp að halda og kannski hefur þetta eitthvað með reynslu að gera, en hann lætur hann bara ekki vita og þegar hann sér hvíta treyju hlaupa framhjá honum þá var það bara of seint og boltinn endar í netinu.“
„Ég hef alltaf sagt að sá varnarmaður sem er lengst frá er rödd, augu og eyru fyrir hina. Hann verður að gefa öðrum leikmönnum merki með því að kalla, öskra, ýta eða hvað það nú er og láta leikmennina vita að það er leikmaður að hlaupa framhjá þeim. Hann gerði það ekki og þeim var refsað,“ sagði Ferdinand.
Athugasemdir