Newcastle blandar sér í baráttu við Man Utd og Chelsea um Delap - Man City veitir Liverpool samkeppni um Kerkez
   mið 21. maí 2025 20:59
Brynjar Ingi Erluson
Tottenham Evrópudeildarmeistari 2025!
Tottenham er Evrópudeildarmeistari!
Tottenham er Evrópudeildarmeistari!
Mynd: EPA
Brennan Johnson skorar sigurmarkið
Brennan Johnson skorar sigurmarkið
Mynd: EPA
Harry Maguire súr á svip eftir markið
Harry Maguire súr á svip eftir markið
Mynd: EPA
Stuðningsmenn United fylgjast með leiknum
Stuðningsmenn United fylgjast með leiknum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tottenham 1 - 0 Manchester Utd
1-0 Brennan Johnson ('42 )

Tottenham er Evrópudeildarmeistari árið 2025 eftir að hafa unnið Manchester United, 1-0, í Bilbao í kvöld. Þetta er fyrsti titill Tottenham síðan 2008 og þýðir þetta að liðið mun spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

United-liðið var líklegra fyrstu mínúturnar og náði að vinna sig þægilega út úr pressu Tottenham.

Bruno Fernandes fékk svona fyrsta alvöru tækifærið til að koma boltanum á markið eftir að Rasmus Höjlund komst á undan Guglielmo Vicario í teignum og lagði hann út á Fernandes, en leikmenn Tottenham náðu að loka vel á Portúgalann sem náði ekki skoti á markið.

Á 8. mínútu kom Noussair Mazraoui í veg fyrir nánast öruggt mark hjá Tottenham er hann stangaði fyrirgjöf Pedro Porro aftur fyrir endamörk. Richarlison var með Mazraoui og hefði líklegast skorað úr færinu.

Tottenham hélt áfram að þjarma að United-mönnum. André Onana varði frá Brennan Johnson sem keyrði hægra megin inn í teiginn eftir að hafa unnið boltann og þá átti Pape Matar Sarr skot sem vörnin náði að fleygja sér fyrir.

Skemmtileg byrjun á leiknum og skiptust liðin á að ógna. Amad Diallo komst nálægt því að taka forystuna fyrir United á 16. mínútu er Harry Maguire kom boltanum á hann eftir hornspyrnu. Amad komst framhjá varnarmanni og lét vaða, en boltinn rétt framhjá markinu.

Hvorugu liðinu tókst að ná almennilegum tökum á leiknum og voru báðir markverðir í örlitlum vandræðum með sendingar og ákvarðanatökur fyrsta hálftímann.

Destiny Udogie var í basli með Diallo, sem kom sér í ágætis stöðu eftir hálftímaleik. Hann náði að koma boltanum fyrir markið, en varnarmenn Tottenham hreinsuðu frá.

Þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum kom fyrsta markið. Pape Matar Sarr kom með fyrirgjöf inn á teiginn á Brennan Johnson og þaðan af Luke Shaw og í vinstra hornið. André Onana reyndi sitt besta til að blaka skoppandi bolta af línunni en hafði ekki erindi sem erfiði.

Hálfleikstölur 1-0 fyrir Tottenham sem var 45 mínútum frá fyrsta titlinum í 17 ár og um leið sæti í Meistaradeild Evrópu.

Það hentaði Tottenham mjög vel hvernig leikurinn spilaðist, þar sem hvorugt liðið var með tök á honum. Tottenham vildi drepa leikinn og tókst það ágætlega í byrjun síðari hálfleiksins.

Á 62. mínútu fékk Dominic Solanke dauðafæri til að koma Tottenham í 2-0. Yves Bissouma keyrði fram völlinn og fann Solanke á milli varnarmanna sem var að komast einn á móti André Onana, en náði ekki nægilega góðri móttöku og rann færið út í sandinn.

Fyrirliðinn Heung-Min Son kom inn á stuttu síðar fyrir Richarlison sem fékk slæman krampa og bað um skiptingu.

United var hársbreidd frá því að jafna metin á 68. mínútu er Guglielmo Vicario klikkaði í löngum bolta sem kom inn á teiginn. Boltinn fór upp í loftið og á Rasmus Höjlund sem skallaði boltann í átt að tómu marki, en Micky van de Ven kom til bjargar með ótrúlegri klippu á línunni.

Áfram héldu United-menn að sækja. Vicario varði frábærlega frá varamanninum Alejandro Garnacho og United-liðið að reyna sitt allra besta til þess að ná inn jöfnunarmarki í lokin.

Tottenham-menn vörðust með alla leikmenn sína stærstan hluta síðari hálfleiksins. Markmiðið var skýrt og það var að halda út, sem gekk fullkomlega.

Á lokamínútu uppbótartímans átti Vicario mikilvæga vörslu eftir skalla Luke Shaw úr miðjum teignum og þá átti Casemiro hjólhestarspyrnu sem hafnaði í hliðarnetinu áður en dómarinn flautaði leikinn af.

Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, sagði fyrr á tímabilinu að hann vinnur alltaf titil á öðru tímabili sínu og stóð hann við þau háfleygu orð.

Magnaður árangur og fyrsta stjóranum sem tekst að vinna titil með Tottenham síðan 2008. Leikurinn var titlaður sem 100 milljóna punda leikurinn þar sem sæti í Meistaradeildinni var undir og það var Tottenham sem sótti það.

Hrikalega slæm úrslit fyrir United sem líkt og Tottenham, hafði sett einbeitingu á að vinna þennan titil. Þetta gæti haft veruleg áhrif á sumargluggann hjá félaginu, en það á vissulega eftir að koma betur í ljós.

Stuðningsmenn, leikmenn og þjálfarar Tottenham geta alla vega leyft sér að fagna í kvöld eftir þessa löngu eyðimerkurgöngu. Þeir höfðu upplifað vonbrigði í fjórum úrslitaleikjum síðustu 17 ár, en í kvöld var röðin komin að þeim að lyfta bikarnum.
Athugasemdir
banner