Al-Wasl vann þægilegan sigur gegn Bani Yas í efstu deild í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og er í öðru sæti eftir sigurinn.
Þetta eru stórar fréttir fyrir félagið sem stekkur uppfyrir Al-Wahda og í annað sæti deildarinnar, en staðan þar er þó aðeins tímabundin þar sem Al-Sharjah getur endurheimt sætið með sigri á fimmtudaginn.
Það er aðeins ein umferð eftir af tímabilinu og fara tvö efstu liðin í asísku Meistaradeildina. Shabab Al-Ahli Dubai er löngu búið að tryggja sér deildartitilinn en það er þriggja liða barátta í gangi um annað sætið og eru lærlingar Milos í þokkalegri stöðu. Þriðja sætið gefur þátttökurétt í Meistaradeild 2 í Asíu, sem samsvarar Evrópudeildinni.
Milos hættir hjá Al-Wasl í sumar og er að skilja við félagið á frábærum nótum.
Jóhann Berg Guðmundsson var þá í byrjunarliði Al-Orubah í Sádi-Arabíu en var skipt af velli í síðari hálfleik þegar staðan var enn markalaus.
Það hrundi allt eftir að Jóa Berg var skipt af velli og urðu lokatölur 3-1 fyrir andstæðingina í liði Al-Qadisiya, sem inniheldur leikmenn á borð við Nacho Fernández, Pierre-Emerick Aubameyang og Nahitan Nández.
Jói og félagar í liði Al-Orubah eru í fallsæti eftir tapið, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni fyrir lokaumferðina. Þeir geta fallið á fimmtudaginn eftir að næstu tvö lið fyrir ofan, sem eiga bæði leik til góða, spila sína leiki í næstsíðustu umferð tímabilsins.
Þá eru 16-liða úrslit norska bikarsins í gangi þar sem Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Sarpsborg og skoraði í sigri á útivelli gegn Egersund.
Sarpsborg lenti óvænt undir snemma leiks en Sveinn Aron snéri leiknum við með marki og stoðsendingu fyrir leikhlé. Lokatölur urðu 1-3 fyrir Sarpsborg sem er fjórða liðið eftir Viking, KFUM Oslo og Stabæk til að tryggja sér þátttökurétt í 8-liða úrslitum.
Álasund er fimmta liðið eftir að hafa sigrað Ham-Kam í vítaspyrnukeppni. Davíð Snær Jóhannsson og Ólafur Guðmundsson voru báðir í byrjunarliði Álasunds á meðan Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham-Kam og kom Viðar Ari Jónsson inn af bekknum.
Brynjar Ingi og Viðar Ari tóku báðir vítaspyrnur þar sem Brynjar klúðraði sinni en Viðar skoraði. Davíð Snær tók áttundu spyrnu Álasunds sem var sigurmark vítakeppninnar. Álasund klúðraði fyrstu tveimur spyrnunum í keppninni en skoraði úr næstu sex til að sigra keppnina.
Al-Wasl 3 - 1 Yani bas
Al-Qadisiya 3 - 1 Al-Orubah
Egersund 1 - 3 Sarpsborg
Aalesund 2 - 2 Ham-Kam
6-5 eftir vítaspyrnukeppni
Athugasemdir