Ruben Amorim, stjóri Manchester United, var þungur á brún eftir að lið hans tapaði úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld.
Meistaradeildarsæti og titill var undir í kvöld, en bæði liðin hafa verið í kringum fallsvæði ensku úrvalsdeildarinnar og settu þau bæði alla einbeitingu á þennan eina leik.
Tottenham hafði betur þökk sé marki Brennan Johnson og fór því sem fór.
„Ég þarf að deila sársaukanum með stuðningsmönnum okkar, þeir eiga meira skilið en þetta. Við reyndum allt, en sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Amorim.
Hann segir að Man Utd hafi verið með tvö plön fyrir markaðinn í sumar og að allt myndi þetta velt á úrslitum kvöldsins.
„Við erum með tvö plön, meira að segja fyrir markaðinn. Við verðum að skilja að það er erfitt fyrir félag eins og okkur að vera ekki í Meistaradeildinni, en núna þurfum við að fara í hitt planið. Ef við fáum meiri tíma þá getrum við hugsað og unnið í þessari viku og reynt að vera betri í deildinni. Þangað beinum við einbeitingunni.“
Hann talaði um leikinn og síðan framtíð sína. Amorim myndi ekki ganga frá borði nema stjórnin og stuðningsfólk félagsins fari fram á það.
„Ég var alltaf mjög hreinskilinn við ykkur. Við stóðum okkur ekki vel í dag, en vorum samt betri en andstæðingurinn. Í seinni hálfleik reyndum við allt og settum miðverðina til hliðar, fyrirgjafir og komast inn í teiginn.“
„Þetta var bara ekki dagurinn okkar. Við vorum ekki fullkomnir og þurfum að bæta margt, en ég er samt alltaf hreinskilinn við ykkur.“
„Við verðum að sjá til en ég ætla ekki að sitja hér og verja sjálfan mig. Það er ekki minn stíll. Ég mun ekki koma hingað og segjast ætla að bæta okkur útaf hinu og þessu eða ég sé að glíma við hin og þessi vandamál. Ég mun ekki gera það. Á þessu augnabliki þarf ég bara smá trú þannig sjáum hvað gerist.“
„Eins og ég sagði áður er ég alltaf hreinskilinn og heiðarlegur. Ég er alltaf opinn og ef stjórnin og stuðningsmennirnir telja mig ekki vera rétta manninn þá fer ég í snatri og án þess að taka einhverjar samræður um að greiða upp samninginn. Ég mun samt ekki hætta, hef mikla trú á starfinu og mun ekki breyta því hvernig ég geri hlutina,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir