banner
   mán 22. júlí 2019 21:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pepsi Max-deildin: Þriðji sigur HK í röð - Markalaust á Kópavogsvelli
Valgeir gerði frábærlega þegar hann nældi í vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Valgeir gerði frábærlega þegar hann nældi í vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
13. umferð Pepsi Max-deildar karla lauk í kvöld með tveimur leikjum.

HK tók á móti FH í Kórnum þar sem bæði lið höfðu fyrir leik kvöldsins unnið tvo leiki í röð í deildinni.

Fyrsta mark leiksins kom á 32. mínútu. Hörður Árnason fékk boltann út á vinstri vængnum og fékk nægan tíma til þess að athafna sig áður en hann gaf fyrir markið. Máni Austmann Hilmarsson virtist ætla að stýra fyrirgjöf Harðar á markið en hitti boltann eitthvað furðulega. Hann hitti boltann ekki verr en það að Emil Atlason gat hent sér fram á fjærstönginni og stangaði Emil boltann í netið.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk HK svo vítaspyrnu. „VÍTI!! HK fá vítaspyrnu eftir hreint út sagt magnaðan sprett hjá hinum 16 ára Valgeir. Fór illa með vörn FH og á endanum tók Guðmann hann niður í boxinu," skrifaði Ármann Örn Guðbjörnsson í beinni textalýsingu frá leiknum.

Atli Arnarsson fór á punktinn og sendi Daða í marki FH í rangt horn. 2-0 fyrir HK í hálfleik.

FH sótti talsvert meira í seinni hálfleik og vildi á 70. mínútu fá vítaspyrnu en Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, leyfði leiknum að halda áfram.

FH hélt áfram að sækja en tókst ekki að skora á HK sem vann sinn þriðja leik i röð.

Á Kópavogsvelli tók Breiðablik á móti Grindavík. Breiðablik hafði fyrir leikinn í kvöld tapað tveimur leikjum í röð í deildinni og var einnig slegið úr Evrópudeildinni af Vaduz í síðustu viku. Grindavík hafði fyrir leikinn í kvöld gert þrjú jafntefli í röð.

Vladan Djogatovic í marki Grindavíkur varði mjög vel frá Thomas Mikkelsen eftir rúmlega hálftíma leik. Í upphafi seinni hálfleiks fékk Josip Zeba hjá Grindavík fínt færi eftir horn en skaut yfir. Seinni hálfleikur var heilt yfir ekki mjög líflegur og markalaust jafntefli niðurstaða.

Breiðablik hefur 23 stig í 2. sæti deildarinnar, FH er í 6. sæti með 19 stig, HK er í 8. sæti með 17 stig og Grindavík er í því 9. með 14 stig.

HK 2 - 0 FH
1-0 Emil Atlason ('32)
2-0 Atli Arnarson ('45, víti)
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 0-0 Grindavík
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner