þri 22. október 2019 19:40
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Íslendingavaktin 
Guðlaugur Victor í liði vikunnar í þriðja sinn á tímabilinu
Sveinn Aron í liði vikunnar á Ítalíu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson er lykilmaður í liði Darmstadt sem er rétt fyrir ofan fallsvæðið í þýsku B-deildinni á upphafi tímabils.

Hann átti stórleik í sigri gegn St. Pauli um helgina og gerði sigurmark Darmstadt með skalla eftir hornspyrnu.

Hann var valinn maður leiksins og settur í lið vikunnar hjá Kicker, sem er ein stærsta og vinsælasta fótboltasíða Þýskalands.

Þetta er í þriðja sinn sem Kicker setur Guðlaug Victor í lið umferðarinnar á leiktíðinni og áhugavert verður að sjá hvort þessar frammistöður hans vekji athygli stærri liða.

Guðlaugur verður 29 ára í apríl og hefur meðal annars spilað fyrir New York Red Bulls í Bandaríkjunum, NEC Nijmegen í Hollandi og FC Zürich í Sviss.

Lið umferðarinnar (3-5-2): Kühn - Caligiuri, Franke, Mavraj - Hack, M. Dæhli, Victor Pálsson, Geis, Hochscheidt - Hofmann, Keita-Ruel

Þá var Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára, valinn í lið vikunnar í ítölsku B-deildinni. Hann leikur fyrir Spezia en hefur ekki fengið mikið af tækifærum.

Hann nýtti þó eitt slíkt um helgina þegar hann kom inn af bekknum, lagði upp og skoraði í 1-2 sigri gegn Pescara.

Spezia er í neðri hluta deildarinnar eftir slaka byrjun og spurning hvort Sveinn Aron fái ekki fleiri tækifæri eftir þessa innkomu.

Lið vikunnar er birt af Serie B News.
Athugasemdir
banner
banner