banner
   mið 23. júní 2021 22:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjólkurbikarinn: Keflavík lagði Breiðablik í framlengingu
Helgi kom Keflavík á bragðið.
Helgi kom Keflavík á bragðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 1 - 0 Breiðablik
1-0 Helgi Þór Jónsson ('113 )
Lestu nánar um leikinn

Keflavík er síðasta liðið til að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.

Keflavík hafði betur gegn Breiðablik í framlengdum leik; frekar óvænt úrslit suður með sjó.

Bæði lið fengu sín færi, en gestirnir voru sterkari aðilinn. Á 23. mínútu voru Blikar óheppnir að taka ekki forystuna. „Hvernig er Breiðablik ekki búið að skora! Sindri ver skalla úr teignum eftir hornið, boltinn á Höskuld sem setur hann aftur fyrir á kollinn á Árna sem skallar í stöng, boltinn þaðan á Damir sem á skot úr markteignum sem Ástbjörn bjargar á línu!" skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu.

Blikarnir naga sig væntanlega í handabökin að hafa ekki nýtt færi sín því það þurfti að framlengja. Staðan var markalaus þegar flautað var af. Um miðjan seinni hálfleik í framlengingunni tók Keflavík forystuna í leiknum.

„Sofandaháttur í vörn gestanna. Kian kemst inn á teiginn vinstra meginn og leggur boltann út í teiginn í hlaupaleið Helga sem klárar í netið af stuttu færi," skrifaði Sverrir þegar Helgi Þór Jónsson skoraði. Helgi reif sig úr að ofan og fagnaði við lófaklapp.

Undir lokin, þegar Blikar lögðu alla áherslu á sóknarleik, þá bætti Davíð Snær Jóhannsson við öðru marki fyrir Keflavík. Stórkostlegur sigur Keflavíkinga staðreynd.

Lokatölur 2-0 og Blikar eru úr leik. Keflavík fer áfram í næstu umferð bikarsins.

Önnur úrslit í dag:
Mjólkurbikarinn: Endurkomusigur í fyrsta leik Óla Jó
Mjólkurbikarinn: Gríðarlega óvænt úrslit og drama í Garðabæ
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner