Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   lau 23. september 2023 18:30
Brynjar Ingi Erluson
England: Langþráður sigur Everton
Miðvörðurinn James Tarkowski skoraði og lagði upp
Miðvörðurinn James Tarkowski skoraði og lagði upp
Mynd: Getty Images
Brentford 1 - 3 Everton
0-1 Abdoulaye Doucoure ('6 )
1-1 Mathias Jensen ('28 )
1-2 James Tarkowski ('67 )
1-3 Dominic Calvert-Lewin ('71 )

Everton vann fyrsta leik sinn í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili er liðið heimsótti Brentford á Community-leikvanginn í Lundúnum í kvöld, en leiknum lauk með 3-1 sigri þeirra bláklæddu.

Það tók Abdoulaye Doucoure aðeins sex mínútur að gera fyrsta markið. James Garner fékk boltann eftir að hornspyrna var hreinsuð frá, kom fyrirgjöfinni inn í teiginn á james Tarkowski, sem skallaði boltann fyrir Doucoure sem þrumaði honum í netið.

Mathias Jensen jafnaði fyrir Brentford á 28. mínútu. Boltinn datt fyrir utan teiginn á Vitaly Janelt, sem lagði hann hægra megin í teiginn á jensen. Danski leikmaðurinn lét vaða á fjær, í stöng og inn.

Brentford hafði lítið skapað sér fram að markinu og var þetta eina skotið sem hæfði markið í fyrri hálfleiknum.

Varnarmaðurinn Tarkowski var hættulegasti maður Everton fram á við. Hann gerði annað mark Everton á 67. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Dwight McNeil og fjórum mínútum síðar gerði Dominic Calvert-Lewin út um leikinn með góðu marki eftir laglega sendingu frá Garner.

Fyrsti sigur Everton á tímabilinu, sem er nú í 15. sæti með 4 stig eftir sex leiki. Brentford er í 12. sæti með 6 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner