Man Utd með Stiller og Gallagher á blaði - Liverpool með augu á Semenyo - Newcastle vill fá Anderson aftur
banner
   fim 23. október 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Á betri stað en fyrir ári - „Stórt nafn í fótboltaheiminum á Íslandi og víðar"
Rúnar Kristinsson og aðstoðarmaður hans, Helgi Sigurðsson.
Rúnar Kristinsson og aðstoðarmaður hans, Helgi Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Viðurkenning ef einhver er að bera víurnar í Rúnar'
'Viðurkenning ef einhver er að bera víurnar í Rúnar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorri Stefán hefur unnið sig inn í lið Fram.
Þorri Stefán hefur unnið sig inn í lið Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vuk byrjaði tímabilið frábærlega en varð svo fyrir meiðslum um mitt mót sem settu strik í reikninginn.
Vuk byrjaði tímabilið frábærlega en varð svo fyrir meiðslum um mitt mót sem settu strik í reikninginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram ákvað í síðasta mánuði að framlengja samninginn við Rúnar Kristinsson og er hann nú samningsbundinn út tímabilið 2027. Rúnar tók við liðinu fyrir tímabilið 2024 og er því að klára sitt annað tímabil sem þjálfari Fram eftir að hafa komið frá KR. Fram endaði í 9. sæti í Bestu deildinni í fyrra og getur með sigri á FH á sunnudag endað í 5. sæti í ár.

Fótbolti.net ræddi við Guðmund Torfason, formann fótboltadeildar Fram, í dag.

Var einhver spurning um annað en að framlengja við Rúnar?

„Ég og Rúnar þekkjumst mjög vel, vorum saman í landsliðinu á árum áður. Ég á í afskaplega góðu samstarfi við Rúnar, hann er mjög traustur. Auðvitað er það viðurkenning ef einhver er að bera víurnar í Rúnar, hann er það stórt nafn í fótboltaheiminum á Íslandi og víðar - verið í Noregi og Belgíu og Svíþjóð. Þetta er þjálfari sem að mínu mati er gríðarlega öflugur og samstarf milli stjórnar og þjálfarateymis hefur gengið mjög vel, mikil samstaða. Það má ekki draga úr þætti Helga Sigurðssonar sem er frábær og þjálfarateymið í heild sinni," segir Guðmundur.

Það voru sögur fyrir um ári síðan að Valur hafi reynt að fá Rúnar í sínar raðir. En var eitthvað í sumar, fannstu að það var áhugi annars staðar frá á Rúnari?

„Ég og Rúnar settumst niður, málin voru rædd, gerum það reglulega og reynum að vera í góðu sambandi. Það var aldrei spurning um annað en að hann yrði áfram. Okkar samtal var þannig að verkefnið sé spennandi og við séum á góðri leið með að byggja upp lið. Okkur sýnist það vera á töluvert betri stað en í fyrra. Við sjáum það á síðustu leikjum, þó að leikirnir núna séu öðruvísi í úrslitakeppninni, þá höfum við sýnt góða frammistöðu ef frá er talinn leikurinn gegn Breiðabliki. Leikurinn við Stjörnuna var einn af okkar betri leikjum í sumar."

„Það var held ég aldrei spurning með Rúnar og að ná samkomulagi við hann núna í haust. Ég held að honum líði vel hjá okkur, við reynum að hugsa vel um okkar fólk."


„Skrifar þína eigin sögu á hverjum degi"
Finna Framarar það hjá sér hvað vanti upp á til að vera enn nær toppliðunum?

„Draumur allra í fótbolta er að vinna til verðlauna, maður er í þessu af því mann langar að keppa um eitthvað. Við erum ekkert öðruvísi en önnur lið. Í liðinu í ár er töluvert um ný andlit, við fórum þá leið að fá leikmenn sem komu úr Lengjudeildinni og svo erlendis frá. Á markaðnum eru upphæðirnar orðnar ansi háar þegar kemur að íslenskum leikmönnum. Við erum með blöndu af reynslumiklum leikmönnum og svo yngri mönnum sem eru að svara kallinu. Sem dæmi eru Freyr (Sigurðsson) og Þorri Stefán (Þorbjörnsson). Þeir voru inn og út úr liðinu til að byrja með en hafa svo algjörlega fest sig í sessi sem er það sem maður vill sjá. Í fótbolta og í lífinu, ef það er mótlæti og þú nærð að sigrast á því, þá verður þú enn betri, það hafa þessir strákar svo sannarlega sýnt og voru báðir valdir í U21 landsliðinu. Þeir hafa sýnt hvað í þeim býr, ásamt öllum hinum. Við erum mjög ánægðir með hópinn."

Sérð þú fyrir þér að með alvöru framherja, eða með Vuk heilan allt tímabilið, þá væruð þið ennþá nær þessu?

„Það hefur kannski lítið verið minnst á það, finnst mér, að við höfum glímt við meiðsli eins og toppliðin. Við missum út Vuk (Oskar Dimitrijevic), Freysi meiddist fyrri hluta móts og alls konar áföll sem við lentum í líka. Aðalmarkvörður okkar til margra ára fer frá okkur og við fáum Viktor Frey (Sigurðsson) inn. Við stóðum frammi fyrir áskorunum, höfum bara sest niður og reynt að yfirstíga þær áskoranir með eins mikilli yfirvegun og hægt er."

„Svo erum við alltaf að brýna fyrir leikmönnum að þú skrifar þína eigin sögu á hverjum degi, þú ræður hvernig þú hagar þér. Ef þú ætlar þér að ná árangri þá verður þú að taka þetta alla leið. Það eru skilaboðin,"
segir Guðmundur.
Athugasemdir
banner